136. löggjafarþing — 63. fundur,  19. des. 2008.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

243. mál
[15:11]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég veitti því líka athygli í ræðu hv. þingmanns að hann talaði um að það væri hægt að reka hér eðlilegt samfélag þar sem tekjur og gjöld stæðust á. Af því tilefni vil ég líka inna hv. þingmann eftir því við þær aðstæður sem við horfumst í augu við nú í efnahagslífi okkar, hvernig hann sér fyrir sér eðlilegt samfélag ef við þyrftum að skera niður ríkisútgjöldin um 160–170 milljarða til viðbótar við það sem við sjáum nú þegar í tillögum stjórnvalda. Hvernig væri það samfélag eðlilegt miðað við það sem við höfum byggt hér upp á undanförnum árum og búið við?

Ég geri mér grein fyrir því að þær hremmingar sem við erum í leiða til þess að það verður verulegt fall í kaupmætti hjá almenningi, það verða erfiðleikar í atvinnulífi, það er hlutur sem við erum að horfast í augu við og þurfum að takast á við. En ég vil vita hvernig þetta eðlilega samfélag hv. þingmanns lítur út miðað við þann mikla niðurskurð sem hann sér bersýnilega fyrir sér í útgjöldum hins opinbera.

Að öðru leyti vil ég þakka fyrir að hann dró a.m.k. að einhverju leyti í land hvað varðar gagnrýni sína á okkur í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði og mun eiga eftir að gera það enn frekar síðar í dag þegar hann heyrir betur um tillögur okkar og hugmyndir í ríkisfjármálunum sem forusta flokksins hefur nú þegar kynnt fjölmiðlum.