136. löggjafarþing — 63. fundur,  19. des. 2008.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

243. mál
[15:13]
Horfa

Jón Magnússon (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er alrangt hjá hv. þm. Árna Þór Sigurðssyni að ég hafi dregið eitthvað í land. Hins vegar, til þess að allir njóti sannmælis, skal ég vissulega segja það hér úr þessum ræðustól að ég ber mikla virðingu fyrir vinnusemi og tillögugerð og tillögusmíð Vinstri grænna á mörgum sviðum og að mörgu leyti. Ég var því ekkert að draga í land, heldur einungis að láta fólk njóta sannmælis.

Hins vegar varðandi þessa afgreiðslu og spurninguna um ríkissjóðshallann, eins og formaður þingflokks Vinstri grænna sagði, og það er raunverulega stefna, þá ég hlýt að líta á það sem stefnu Vinstri grænna að það sé ekkert athugavert við að reka ríkissjóð með miklum halla miðað við þessar aðstæður. Það var það sem hv. þm. Ögmundur Jónasson sagði fyrr í umræðunni í dag um þetta atriði. Þar erum við bara einfaldlega hugmyndafræðilega ósammála. Ég tel að það sé óafsakanlegt að reka ríkissjóð með halla, það þurfi að koma mun verri aðstæður til til þess að það sé réttlætanlegt.

Það er hins vegar eitt sem ég skil ekki hjá hv. þm. Árna Þór Sigurðssyni þegar hann talar um þessa 170 milljarða. Það er talað um 100 milljarða halla á ríkissjóði miðað við fjárlagafrumvarpið eins og það lítur út í dag. Það er sá veruleiki sem ég er að tala um og fjalla um að hefði verið skylda, í fyrsta lagi ríkisstjórnarinnar að leggja fram frumvarp hvað það varðar og síðan Alþingis að ganga í að reyna að lagfæra það.

Við vitum báðir, hv. þm. Árni Þór Sigurðsson, að þegar málin eru komin á þetta stig og á afgreiðslustig með þeim hætti og með því vinnulagi sem tíðkast á Alþingi, að hversu góðan vilja sem ég eða hv. þm. Árni Þór Sigurðsson höfum til þess að reyna að koma einhverju viti í þetta frumvarp þá gefst okkur ekki tækifæri til þess því miður því að ríkisstjórnarmeirihlutinn sér fyrir því að knýja sitt mál fram.