136. löggjafarþing — 63. fundur,  19. des. 2008.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

243. mál
[15:36]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hv. þingmaður gerði töluvert að umræðuefni meint samráðsleysi ríkisstjórnarinnar við ýmsa aðila í þjóðfélaginu. Ég ætla í sjálfu sér ekki að ræða þau mál almennt talað en um það sem snýr að samráði við Bændasamtökin varðandi það mál sem verið er að ræða hérna núna vil ég segja að ég hafði samráð við forustumenn bænda um þessi mál í þeim skilningi að ég ræddi þau við forustumenn bænda, en ég gerði mér ekki vonir um eða ætlaðist til að forustumenn bænda mundu blessa þá ákvörðun sem hér er verið að kynna. Þetta er ákvörðun sem leiðir til þess að afkoma bænda muni versna og það er að mínu mati ekkert hægt að gera ráð fyrir því að hagsmunasamtök eins og Bændasamtökin geti með einhverjum hætti blessað slíka ákvörðun.

Hins vegar var m.a. til umræðu hvort til að mynda væri hægt að útfæra búvörusamningana með einhverjum öðrum hætti en gert er ráð fyrir í samningunum sjálfum þannig að stærri hluti þeirra greiðslna sem gert er ráð fyrir í þessum búvörusamningum upp á 10 milljarða kr. rynni beint til bænda sjálfra. Þetta er auðvitað mál sem er sjálfsagt að reyna að ræða áfram. Það var eftir því kallað fyrr í þessari umræðu hvort ég væri tilbúinn til að standa að einhverju slíku og ég lýsti því ítrekað yfir og vil gera það aftur hér úr þessum ræðustóli núna að ég er að sjálfsögðu reiðubúinn til að ræða einhverjar slíkar útfærslur sem gætu gagnast bændum betur.

Ég hafna því algjörlega að ég hafi ekki haft samráð við Bændasamtökin, ég gætti þess mjög vel að eiga slíkt samráð við Bændasamtökin. Þetta frumvarp hér sem snýr að búvörusamningunum felur það ekki í sér eins og ég hef margoft sagt að verið sé að fara inn í grundvöll búvörusamninganna sjálfra, það er einfaldlega verið að setja þak á þær hækkanir sem verða á búvörusamningunum milli ára, milli ársins 2008 og 2009. Gert er ráð fyrir að þessi hækkun nemi 5,7% eins og fram hefur komið, og það er gert í ljósi þeirra sérstöku aðstæðna sem við búum við núna og er gert með sama hætti og verið er að gera varðandi aðrar tilfærslur, til að mynda greiðslur til almannatrygginga í landinu.