136. löggjafarþing — 63. fundur,  19. des. 2008.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

243. mál
[15:42]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir þessi viðbrögð en ég vil þó segja að ég tel mjög mikilvægt að ef hann ætlar að fara í einhverja frekari vinnu með Bændasamtökunum um útfærslu í þessu efni sé tekið mið af og tillit til þess gríðarlega kostnaðarauka sem bændastéttin hefur orðið fyrir á undanförnum missirum. Við þekkjum það öll og höfum áður rætt hér í þessum sal. Ég tel að það sé óhjákvæmilegt að í öllu þessu samhengi sé ekki bara litið til þess að bændur verði að leggja sitt af mörkum eins og allir aðrir, það verður að taka tillit til þess mikla kostnaðarauka sem þeir hafa orðið fyrir og það verður að vera hluti af öllu þessu reikningsdæmi.

Þegar hér er sagt að í raun og veru verði að höggva í allar stéttir ef svo má segja, bændastéttina, lífeyrisþega og almenna launþega, hefur ekki farið fram hjá okkur að það er verið að gera það. Við höfum mörg hver gagnrýnt hversu harkalega er gengið fram í þeim efnum á sama tíma og við höfum gagnrýnt að það er allt of lítið hugsað um og talað um að það þurfi að taka á þeim sem best eru settir í samfélaginu.

Þegar ríkisbankarnir urðu til á rústum gömlu bankanna voru ráðnir yfirmenn bankanna á svimandi háum launum, miklu hærri launum en t.d. forsætisráðherra, og þetta viðgengst enn þá víða í kerfinu og það er ekkert verið að taka á því. Það er þetta sem almenningi í landinu blöskrar og sem fólk mótmælir m.a. á fundum úti og inni og þar sem þjóðin mótmælir ráðherrum þó að þeir hafi ekki tekið eftir því að þeir væru að tala við eða eiga orðastað við þjóðina.

Þarna þarf líka að taka á, ekki bara á bændum eða lífeyrisþegum eða almennu launafólki, það verður líka að taka á þessum atriðum og ríkisstjórnin verður að sýna að hún ætli sér að gera það.