136. löggjafarþing — 63. fundur,  19. des. 2008.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

243. mál
[16:11]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður verður bara að hlusta grannt eftir og þá mun hann átta sig á þessu. Hann fellst á það að mikilvægt sé að búa til svigrúm og það geti verið réttlætanlegt að fara þar í tekjuöflun og ég trúi því að jafnaðarmenn sem svo kalla sig hljóti að geta fallist á það að við erum hér að fara leiðir í skattamálum sem eru mjög sanngjarnar og til þess að jafna tekjur og aðstæður.

Við höfum hvergi haldið því fram og gerum ekki hér í okkar útspili að þetta leysi allan vandann og það þurfi þá ekkert að skera niður. Það er misskilningur. Þvert á móti erum við í raun og veru að segja að við föllumst á í aðalatriðum þann harkalega samdrátt í rekstri ríkisins sem áformaður er að öðru leyti en því að við viljum taka út skerðinguna á almannatryggingakerfinu og draga úr, eins og svigrúmið leyfir sem við erum að tala hér um, skerðingunni í heilbrigðis- og menntamálum. Það þýðir á mannamáli að við horfumst í augu við og viðurkennum að það er engin önnur leið, því miður, en að draga umtalsvert saman og fresta framkvæmdum o.s.frv. Við leggjumst ekki gegn því. Að sjálfsögðu eru þar hlutirnir misvel útfærðir og missársaukafullir og það þarf að skoða.

Það eru t.d. ýmsir smáútgjaldaliðir sem þarna eru á ferðinni sem eru ákaflega sársaukafullir eins og að skera af með 24 millj. kr. sparnaði starfsemi háskólans úti um land, þekkingarsetrin. Það er sorglegt ef menn hafa ekki einu sinni efni á því að leyfa þessari litlu veikburða starfsemi að lifa sem er gríðarlega mikilvæg á sínum svæðum.

Forgangsröðun okkar liggur hér fyrir og ég tel að þegar hv. þingmaður verður búinn að kynna sér þetta sem hann mun gera nú á eftir átti hann sig á því að það er ekki þannig, enda var ekki við því að búast, að framganga okkar sé óábyrg eða ómálefnaleg í þessum efnum. Ég tel þvert á móti að við séum að sýna það umfram alla aðra flokka, og ríkisstjórnarflokkana þar meðtalda, hvernig við teljum að sé á heiðarlegan hátt hægt að (Forseti hringir.) nálgast þetta viðfangsefni.