136. löggjafarþing — 63. fundur,  19. des. 2008.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

243. mál
[16:14]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Auðvitað er það rétt hjá hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni að það er hreint neyðarbrauð að fara inn í búvörusamningana eins og við erum að gera með þessu frumvarpi. Og auðvitað er það gert vegna þess að ríkissjóður er í hreinni neyð vegna afkomu sinnar.

Við vitum að þegar fjárlagafrumvarpið var lagt fram í byrjun október var gert ráð fyrir því að búvörusamningarnir yrðu verðbættir að fullu. Þær aðstæður sem síðan hafa orðið hafa hins vegar kallað á það að við höfum jafnvel orðið að fara í endurmat á hlutum sem við höfðum ekki ímyndunarafl til þess að ætla að við þyrftum að fara í að skoða sérstaklega og þar með talið voru búvörusamningarnir.

Við erum að bregðast við með sambærilegum hætti gagnvart búvörusamningunum eins og við erum að gera í sambandi við almannatryggingakerfið. Við erum að setja þak á vísitölubæturnar og erum ekki að bæta þessar tilfærslur að fullu eins og ella hefði orðið.

Hv. þingmaður gerði verðtrygginguna í sjálfu sér að töluverðu umræðuefni sínu. Það væri hægt að fara mörgum orðum um hana. Við ræddum þetta áðan, ég og hv. þm. Álfheiður Ingadóttir, og ég ætla ekki að endurtaka þau vandamál sem því væru samfara að fara inn í þau mál eins og hv. þingmaður ýjaði að. Það er einfaldlega þannig að ríkisstjórnin fór með aðilum á sínum vegum yfir þessi mál mjög rækilega og niðurstaðan varð sú að það greiðslujöfnunarfrumvarp sem seinna varð að lögum sem gerir það að verkum að þeir sem eru með þessar verðtryggðu skuldir hafa möguleika á því að ýta þessum verðbólgukúfi aftur fyrir sig. Auðvitað mun það laga greiðslustöðu manna.

Með sama hætti hafa bankarnir, m.a. vegna tilmæla ríkisstjórnarinnar, fryst hin erlendu lán og mér er kunnugt um að það hefur gengið mjög vel, m.a. hjá landbúnaðinum og sjávarútveginum, að fá slíka fyrirgreiðslu hjá bönkunum. Við trúum því og verðum auðvitað að treysta því að það gengisstig sem er núna og veldur því að skuldir manna hrannast upp muni breytast og þess (Forseti hringir.) vegna muni hinar erlendu skuldir lækka og möguleikar manna til þess að standa undir þessum skuldum muni þar með (Forseti hringir.) batna þegar fram í sækir.