136. löggjafarþing — 63. fundur,  19. des. 2008.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

243. mál
[16:40]
Horfa

Grétar Mar Jónsson (Fl) (andsvar):

Herra forseti. Ég tók eftir því að hv. þm. Árni Páll Árnason gat þess að allt væri undir, allt þyrfti að stokka upp. Auðvitað er það fagnaðarefni þegar þingmaðurinn kemur inn á þetta og þess vegna vil ég spyrja hann um kvótann, fiskinn í sjónum sem gefur okkur gjaldeyristekjur núna og heldur raunverulega lífi í þjóðinni nú um stundir, hvort hann eigi að vera óbreyttur. Hvort sömu sægreifarnir sem hafa haft tangarhald á veiðiheimildunum, kvótanum, eigi að fá að hafa þær áfram, hvort gjafakvótakerfið eigi að vera áfram við lýði eða hvort það standi til að afnema það, og hvort hann sé ekki sammála okkur í Frjálslynda flokknum um að innleysa eigi allar veiðiheimildir og bjóða þær upp hæstbjóðanda sem treystir sér til að leigja þær á sem hæstu verði og skapa þar með gjaldeyristekjur inn í þjóðfélagið til handa þeim sem þurfa kannski mest á því halda svo sem öryrkjar og aldraðir.

Hvað varðar útflutning á landbúnaðarvörum þá minntist hv. þingmaður á að við þyrftum að ganga í Evrópusambandið til þess að það væri hægt, en hefur hann gleymt samningnum um Evrópska efnahagssvæðið?

Til að auka tekjur í þjóðfélaginu er hægt að bæta við þorskkvótann og kvóta í flestum tegundum, þ.e. til að stækka kökuna. Í öðru lagi er svo apparat sem heitir utanríkisþjónustan, utanríkisráðuneytið, sem hefur 9 milljarða á fjárlögum næsta árs og þar er hægt að skera heldur betur niður miðað við það sem fyrirhugað er.