136. löggjafarþing — 63. fundur,  19. des. 2008.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

243. mál
[16:42]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Fyrst varðandi kvótann. Ég er ekki talsmaður þess að taka veiðiheimildir bótalaust af þeim sem nú hafa þær á hendi. Ég held að það væri óðs manns æði og mundi kollvarpa sjávarútveginum í þeirri mynd sem við þekkjum hann. Ég hef hins vegar alltaf verið þeirrar skoðunar að við þurfum að vinna okkur út úr því kvótakerfi sem við búum við og koma á endurgjaldi í einu eða öðru formi til ríkisins fyrir afnot af veiðiheimildum. Það er auðvitað útfærsluatriði hvernig því verður komið á en ég sé ekki að það geti leyst efnahagsvandann sem við stöndum frammi fyrir í dag.

Hv. þingmaður spurði hvort ég væri búinn að gleyma samningnum um Evrópska efnahagssvæðið þegar kæmi að útflutningi á landbúnaðarvörum. Nei, akkúrat ekki, hv. þingmaður, því að landbúnaðarvörur eru ekki hluti af gildissviði EES-samningsins. Hann tekur ekki til viðskipta með landbúnaðarvörur, það er akkúrat meinið, það er vandinn, þannig að íslenskir bændur hafa ekki aðgang fyrir framleiðsluvörur sínar inn á evrópska markaði. Við höfum náð, íslenska ríkið, að mjálma út með ærinni fyrirhöfn á undanförnum árum smotterískvóta fyrir aðgang að markaði fyrir íslenskar landbúnaðarvörur hér þar, 25 tonn af smjöri o.s.frv., en þetta eru allt of litlir kvótar til að það sé arðbært fyrir fyrirtæki í Evrópu að bjóða upp á þessa vöru eða markaðssetja hana. Þess vegna er brýn nauðsyn fyrir íslenskan landbúnað að fá aðild að Evrópusambandinu þar sem viðskipti með landbúnaðarvörur verða frjáls þannig að bændur geti raunverulega sótt inn á evrópskan markað. Ég er ekki í nokkrum vafa um að íslenskt smjör ætti gríðarleg sóknarfæri á evrópskum markaði og ýmsar aðrar vörur, skyr t.d., eiga mikið sóknarfæri inn á þennan markað. Það er erfiðara með árstíðabundna vöru eins og lambakjöt.

Hvað varðar niðurskurð í utanríkisþjónustunni þá get ég kannski komið að honum í seinna andsvari mínu.