136. löggjafarþing — 63. fundur,  19. des. 2008.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

243. mál
[16:45]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vísa til þess sem ég sagði áðan hvað varðar kvótann.

Hins vegar heldur hv. þingmaður því ranglega fram að það sé enginn vilji til að taka á þar sem á þarf að halda, það er bara þvert á móti rangt. (GMJ: Þú talaðir um …) Ég var að tala um sóknarfæri fyrir bændur, hv. þingmaður. (Gripið fram í.)

Að því er varðar utanríkisþjónustuna sem hv. þingmaður nefndi áðan er vert að nefna að í utanríkisþjónustunni er núna gerð tillaga um 20% niðurskurð, hvorki meira né minna. Ég er sammála hv. þingmanni að það kann að vera möguleiki á enn frekari niðurskurði (Gripið fram í.) á næsta ári og ég held að það sé óhjákvæmilegt að velta þar við mörgum steinum (GMJ: Af hverju …?) og endurskoða kostnað þar. En ég held líka að þjóð sem verður fyrir efnahagslegu áfalli verði að hafa öfluga utanríkisþjónustu því að hún þarf að vinna sér orðspor aftur, hún þarf að vinna sér markaði aftur og utanríkisþjónustan er lykillinn að því við vinnum framleiðsluvörum okkar aðgang að erlendum mörkuðum.