136. löggjafarþing — 63. fundur,  19. des. 2008.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

243. mál
[16:49]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er alveg sammála hv. þingmanni um að of mikill niðurskurður nú gæti aukið á atvinnuleysisvanda og skapað miklu stærri vandamál en við stöndum frammi fyrir. Það er nákvæmlega þess vegna sem við fórum ekki í allt of mikinn niðurskurð, það er nákvæmlega þess vegna sem hér er farið mjög varlega. Ríkissjóðshallinn er alveg við stærstu mörk vegna þess að það verður ekki auðvelt að fjármagna hann innan lands.

Hv. þingmaður talar um að lífeyrissjóðir eigi að fjármagna ríki og sveitarfélög innan lands. Eftir stendur þá, hv. þingmaður, að endurreistir íslenskir bankar eru ekki í lánaviðskiptum við erlenda banka þannig að þeir geta ekki veitt erlent lánsfé inn í landið. Þeir skuldbreyta hjá fyrirtækjum og hjá heimilum. Af þessum skuldbreytingum leiðir að þeir fá minni peninga en þeir ella fengju inn á næsta ári til að endurlána.

Ég spyr hv. þingmann: Á þá atvinnulífið bara að hrynja? Hann kallar yfir þá sem eru á almennum vinnumarkaði, almenna launamenn, stórfellt atvinnuleysi vegna þess að fyrirtækin munu ekki hafa aðgang að lánsfé, þau munu ekki geta haldið áfram að standa við skuldbindingar sínar. Það er ekki þannig að lífeyrissjóðirnir einir eigi bara að koma ríkinu og sveitarfélögunum í skjól og þá megi afgangurinn af þjóðinni bara gossa eins og hv. þingmaður virðist tala hér fyrir.

Það eru takmarkaðir peningar sem lífeyrissjóðirnir hafa til ráðstöfunar á næsta ári, líklega um 120 milljarðar. Þeir duga ekki fyrir endurfjármögnunarþörf fyrirtækja, endurfjármögnunarþörf sveitarfélaga og tæpast fyrir þeim fjárlagahalla sem við höfum í dag, hvað þá ef um tillögur Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs um 40 milljarða viðbótarfjárlagahalla yrði að ræða, ef við ykjum fjárlagahallann um sem nemur 40 milljörðum. (PHB: Prenta peninga.) Það er þá ekki nema annað tveggja sem gerist, annað hvort prentum við peninga með tilheyrandi óðaverðbólgu eða vaxtastigið gýs upp vegna þess að það er allt of lítið (Forseti hringir.) framboð á peningum. (PHB: Nema hvort tveggja sé.) Nema hvort tveggja sé.