136. löggjafarþing — 63. fundur,  19. des. 2008.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

243. mál
[16:54]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta efh.- og skattn. (Birkir Jón Jónsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil segja það hv. þm. Árna Páli Árnasyni til hróss að við stjórnarandstæðingar gátum sært upp einn þingmann Samfylkingarinnar í ræðu sem hann flutti að mörgu leyti með mjög málefnalegum hætti.

Að sama skapi er sorglegt þegar maður upplifir það að stjórnarliðar kalla eftir og fullyrða að stjórnarandstaðan hafi ekki boðað neinar lausnir. Manni líður svona eins og að þegar bátur er hér um bil sokkinn byrji menn loks að ausa. Það er í raun og veru sú staða sem er uppi núna. Ég vil minna hv. þingmann á það að við framsóknarmenn lögðum fram tillögu til þingsályktunar í fyrri hluta októbermánaðar um að stofna samvinnu- og efnahagsráð Íslands þar sem allir aðilar sem hafa áhrif á stjórn efnahagslífsins yrðu kallaðir að borðinu, forustumenn stjórnmálaflokka, atvinnulífs, launþega, sveitarfélaga, fjármálafyrirtækja, Bændasamtaka Íslands og sjávarútvegsfyrirtækja. Það tók enginn stjórnarliði þátt í umræðu um þetta frumvarp okkar og í rauninni var það einungis Frjálslyndi flokkurinn sem tók þátt í umræðunni. Það er svo ódýrt fyrir stjórnarliða að kalla hér eftir einhverjum patentlausnum. Það hefði þurft að kalla þetta samvinnu- og efnahagsráð Íslands saman miklu fyrr, strax í upphafi hrunsins.

Ég ætla að minna hv. þingmann á að útgjöld ríkissjóðs eru að 70% hluta laun. Við töluðum fyrir frumvarpi um lækkun launa æðstu embættismanna ríkisins og ég held að allir þurfi að taka á sig einhverja skerðingu í ljósi þeirra atburða sem hér hafa gengið yfir. Þetta efnahagsráð hefði getað verið búið að leggja línurnar um þjóðarsátt í þeim efnum.

Það sem við erum að gagnrýna hér, framsóknarmenn, er að það er byrjað á (Forseti hringir.) öldruðum, öryrkjum, sjúklingum og bændum þegar ríkisstjórnin byrjar að skera niður, því miður.

Hæstv. forseti. (Forseti hringir.) Ég hafna því að framsóknarmenn hafi ekki lagt fram tillögur til úrbóta.