136. löggjafarþing — 63. fundur,  19. des. 2008.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

243. mál
[17:00]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Óþarfi er að lengja umræðuna mjög að þessu leyti. Því miður fáum við ekki breytt því sem gerðist. Eins og ég nefndi í fyrra andsvari mínu þá lagði ég til í sumar skipulegan samráðsvettvang af þessum toga. Satt að segja er gert ráð fyrir honum í stjórnarsáttmálanum. Þetta var eitt af kosningamálum Samfylkingarinnar. Efnahagsstjórnun væri samhæfðari ef menn væru ekki alltaf að togast á.

Einn grunnþáttanna í efnahagsáætluninni sem unnin hefur verið í samvinnu við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn er akkúrat þessi samstilling milli ríkisstjórnar og Seðlabanka. Á undanförnum mánuðum hefur ekki skort að ég hafi gagnrýnt Seðlabanka Íslands fyrir að nenna ekki að ganga í takt við ríkisstjórnina og hlaupa eins og huglaus köttur út um allar trissur þegar gefur á bátinn, skjóta sér undan ábyrgð á eigin vaxtahækkunum o.s.frv.

Mikilvægt er að allir gangi í takt og vinni saman. Ég held og vonast til þess, því þegar við komumst út úr mesta brimrótinu hér rétt eftir áramót (Forseti hringir.) og áður en við tökumst á við enn erfiðari vandamál í ríkisfjármálum — sem við verðum að gera á næsta ári alveg sama þótt vinstri grænir vilji ekki horfast í augu við það — (Forseti hringir.) þá skiptir máli að koma á heildstæðri stefnu.