136. löggjafarþing — 63. fundur,  19. des. 2008.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

243. mál
[20:02]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Frú forseti. Við höfum rætt í dag frumvarp til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum og farið nokkuð vítt yfir það svið. Í fyrri ræðu minni í þessu máli fór ég yfir nokkur atriði sem mér þótti mikilvægt að vekja máls á. Þar er ég m.a. að tala um ákvörðun sem felst í frumvarpinu, verði það að lögum, um að taka úr sambandi að hluta til vísitölu á greiðslur til bænda samkvæmt búvörusamningi sem þýðir verulegt tekjutap fyrir þá stétt. Ég hef farið aðeins yfir málefni sveitarfélaga og í málflutningi okkar þingmanna Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs hefur sömuleiðis verið farið yfir skerðingarnar sem áformaðar eru í þessu lagafrumvarpi í lífeyriskerfinu, almannatryggingakerfinu og gagnvart öldruðum og síðast en ekki síst um þá nýbreytni sem ríkisstjórnin hefur ákveðið að taka upp sem eru gjöld fyrir innlögn á sjúkrahús. Það atriði höfum við gagnrýnt mjög harkalega vegna þess að í því felst alveg ný stefnumótun af hálfu stjórnvalda. Hingað til höfum við blessunarlega verið laus við að fjárhagur manna ráði því eða geti ráðið því hvort fólk getur lagst inn á sjúkrahús eða ekki. Margir telja kannski harkalegt að orða þetta svona vegna þess að þessi gjaldtaka eigi ekki að koma í veg fyrir að fólk leggist inn á sjúkrahús, en engu að síður er það svo að þau gjöld sem hér er gerð tillaga um að lögð verði á geta verið íþyngjandi fyrir marga. Hér er mótuð ný stefna og hún er að mati okkar í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði ákaflega ójafnaðarleg ef svo má segja.

Við höfum fengið að heyra það frá ýmsum, m.a. frá þingmönnum úr stjórnarherbúðunum, að Vinstri hreyfingin – grænt framboð hafi ekki gert neinar sérstakar tillögur eða að tillögur þeirra séu lítilsigldar og hafi ekki nein sérstök áhrif, þær séu fyrst og fremst til útgjaldaauka og mundu leiða til aukins halla á ríkissjóði frá því sem þegar er lagt upp með. Ég vil því fara aðeins yfir það mál sérstaklega í síðari ræðu minni.

Ég vil fyrst geta eins vegna þess að það komu upp mismunandi tölur í tengslum við hallann á fjárlögum eins og hann virðist ætla að verða á árinu 2009 miðað við fjárlagafrumvarp. Ég hafði nefnt töluna 160–170 milljarða kr. Því var reyndar mótmælt af einum hv. þingmanni, hv. þm. Jóni Magnússyni, sem sagði að hallinn yrði um eða innan við 100 milljarðar kr. Það er rétt að skýra þann mun sem í þessu felst. Eins og fjárlagafrumvarpið fyrir 2009 stendur núna eftir 2. umr. sýnir það halla upp á tæplega 100 milljarða kr. en þá er rétt að taka fram að ekki er tekið tillit til vaxtakostnaðar af þeim skuldbindingum, þeim lánum sem ríkissjóður tekur á næsta ári, m.a. vegna Icesave-reikninganna og lánanna á vegum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Ég hygg að við 3. umr. komi viðbótartölur inn í fjárlagafrumvarpið til að mæta þessum kostnaði sem sennilega verða á bilinu 60–70 milljarðar og vaxtakostnaðurinn sérstaklega reiknaður 80–90 milljarðar en síðan einhverjar aðgerðir á móti til lækkunar á þeirri tölu. Hallinn stefnir því í að verða um 160–170 milljarðar á næsta ári rétt eins og ég gat um í fyrri ræðu minni.

Við höfum, Vinstri hreyfingin – grænt framboð, kynnt og lagt fram á Alþingi í dag þrjú frumvörp til laga. Í fyrsta lagi frumvarp um þrepaskipt álag á hærri laun. Við teljum mikilvægt að þeim byrðum sem óhjákvæmilega lenda nú á herðum landsmanna vegna þeirra aðstæðna sem hér hafa skapast í efnahagslífinu, sé skipt á réttlátan hátt. Við teljum að hægt sé að forða okkur frá mesta niðurskurðinum í velferðarkerfinu, í félagskerfinu, hvað varðar málefni lífeyrisþega, aldraðra og öryrkja, og mesta niðurskurðinum í menntakerfinu og sjúkrahúsinnlagnargjaldinu með ýmiss konar öðrum ráðstöfunum, með aukinni tekjuöflun í formi þrepaskipts álags á hærri laun, og þar tölum við um að það byrji við 500 þús. kr. á mánuði sem 3% álag og síðan 8% álag á enn hærri tekjur.

Við erum með frumvarp um breytt fyrirkomulag fjármagnstekjuskatts sem gerir ráð fyrir því að skattprósentan í fjármagnstekjuskatti hækki úr 10% í 14% en jafnframt verði innleitt frítekjumark í fjármagnstekjuskattinum þannig að allur almennur venjulegur sparnaður hins almenna borgara verði undanþeginn fjármagnstekjuskatti eða það komi frítekjumark eða eins konar persónuafsláttur inn í fjármagnstekjuskattinn og 14% skatturinn leggist þá á hærri fjármagnstekjur.

Þá erum við með frumvarp um reiknað endurgjald fjármagnstekjuhafa sem hafa litlar eða engar launatekjur taldar fram. Með þessum ráðstöfunum teljum við að ná megi viðbótartekjum upp á 5,5–6 milljarða kr. sem fer langt með að mæta þeim niðurskurði sem er í frumvarpi ríkisstjórnarinnar og lendir sérstaklega á almannatryggingalífeyriskerfinu.

Loks erum við með nokkrar hugmyndir um viðbótarsparnað til að draga úr verstu tillögunum í frumvarpinu sem hér er til umræðu. Við teljum unnt að leggja niður Varnarmálastofnun, hún sé óþörf. Ég held reyndar að það sé vaxandi skilningur á því og þeirri skoðun vaxi fiskur um hrygg, líka innan raða stjórnarflokkanna beggja, að það sé óþarfi við þær aðstæður sem við erum í núna að setja svona mikla fjármuni í Varnarmálastofnun. Við teljum að þar sé hægt að spara um 700–800 millj. kr. strax á næsta ári.

Við teljum að ekki eigi að halda til streitu stofnun Sjúkratryggingastofnunar vegna þess að sú kerfisbreyting sem þar er á ferðinni, að taka hluta af starfsemi Tryggingastofnunar og setja í sérstaka stofnun, sé í fyrsta lagi illa undirbúin. Það er augljóslega mikill ágreiningur um það mál, bæði milli stjórnarflokkanna og einnig meðal starfsfólks í þessum geira. Það kostar auðvitað heilmikla peninga að fara í endurskipulagningu á ríkisstofnunum með þessum hætti og við teljum að þarna gæti orðið umtalsverður sparnaður eða sem næst 250 millj. kr. á næsta ári. Við teljum að hætta eigi við margs konar fyrirhugaðar kerfisbreytingar m.a. í starfsemi heilsugæslustöðva út um land vegna þess að slíkar kerfisbreytingar hafa alltaf í för með sér umtalsverðan kostnað sem á ekki að leggja í á þessum tímum.

Við leggjum líka til að hætt verði við þátttöku Íslands á heimssýningunni í Kína. Vissulega er gert ráð fyrir því í fjárlagafrumvarpinu að draga úr útgjöldum til þess verkefnis en við teljum að þegar leita þarf að sparnaði nánast alls staðar sé nær að gera það á þessum lið heldur en með álagi eða upptöku sjúklingaskatts á spítalana.

Þannig teljum við okkur leggja fram með ábyrgum hætti ákveðnar hugmyndir bæði um viðbótartekjuöflun þar sem vísað er til jöfnuðar og viðbótarsparnað. Þetta leggjum við fram sem aðgerðir til að unnt sé að hætta við verstu hlutina í frumvarpi ríkisstjórnarinnar um ráðstafanir í ríkisfjármálum.

Við teljum, virðulegi forseti, að þetta sé málefnalegt innlegg í umræðuna og að taka eigi þessum hugmyndum fagnandi, það eigi ekki að mæta þeim með einhverjum klisjum og fyrirslætti (Forseti hringir.) um að tillögur af hálfu Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs séu ekki ábyrgar, því að þær eru það sannarlega og ég sé að jafnvel sumir stjórnarþingmenn kinka kolli og segja að (Forseti hringir.) þetta séu tillögur sem hiklaust megi skoða frekar.