136. löggjafarþing — 63. fundur,  19. des. 2008.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

243. mál
[20:13]
Horfa

Helga Sigrún Harðardóttir (F):

Frú forseti. Nú líður að jólum. Hér í þinginu standa þingmenn frammi fyrir því að hvert stórmálið rekur annað. Algerlega ný og gjörbreytt fjárlög, fjáraukalög, að ekki sé talað um svonefndar ráðstafanir í ríkisfjármálum. Þessi mál ásamt fjölmörgum öðrum eiga hv. þingmenn að gjóa öðru auganu á og afgreiða svo yfirleitt með miklum afbrigðum án þess að hafa tækifæri til þess að kynna sér fjárhagslegar forsendur fyrir þeim eða afleiðingar þeirra fyrir íslenskar fjölskyldur.

Fjárhagslegar forsendur fyrir þessum málum liggja alls ekki fyrir og það vantar mjög mikið upp á það meira að segja. Sá ótti hefur læðst að mér undanfarna daga og vikur að hv. ríkisstjórn hafi ekki hugmynd um hvert hún er að reka þjóð sína. Ekki hugmynd, en það grillir í hengiflug í gegnum þokuna.

Nú á að afgreiða hér tekju- og gjaldaáætlun ríkissjóðs til næsta árs á næstu dögum. Það liggur ekki fyrir hverjar skuldbindingar ríkissjóðs eru varðandi hina margumræddu Icesave-reikninga, hvað þar fæst að láni og á hvaða kjörum. Það hefur verið reiknuð út 13% kaupmáttarskerðing að meðaltali. Það veit hvert mannsbarn hvað það þýðir. Það þýðir að þeir sem minnst hafa munu bera þyngstu byrðarnar. Og um það vitna biðraðir hjá Mæðrastyrksnefnd og öðrum hjálparsamtökum þessa dagana. Biðraðir sem lengjast með hverri úthlutun. Þar stendur fólk úti í kuldanum með kökkinn í hálsinum til að biðja um mat til að geta gefið börnunum sínum að borða. Dramatískustu jólasögurnar eru blákaldur veruleiki á Íslandi.

Á sama tíma situr ríkisstjórnin og skammtar þessu sama fólki frekari niðurskurð á það litla sem það hefur fyrir. Auknum álögum hvað varðar heilsugæslu og sjúkrakostnað. Eldri borgarar, öryrkjar, sjúklingar og bændur eru þeir sem fá úthlutað þyngstu byrðunum þessi jólin, virðulegi forseti. Það veit líka hvert mannsbarn að þegar búið er að leggja línurnar fyrir næsta ár verður erfitt fyrir þessa hópa að fá nokkra leiðréttingu. Þeir eru með þessari lagasetningu fastir í netinu og eiga sér engrar undankomu auðið.

Stjórnarliðar hafa ekki séð sér fært að taka þátt í umræðum um þessi mál, virðulegi forseti, að neinu marki. Þeir þora ekki að standa fyrir máli sínu hér á hinu hæstv. Alþingi. Þeir eru í felum. Þegar hv. þm. Birkir Jón Jónsson stóð í ræðustóli í morgun og óskaði hann sérstaklega eftir því að formaður og varaformaður þeirrar nefndar sem vann hinar ógeðfelldu ráðstafanir ríkisstjórnarinnar í ríkisfjármálum tækju þátt í umræðunni og svöruðu nokkrum vel völdum spurningum. Þeir sáu sér ekki fært að gera það. Einn einasti stjórnarliði var hér í salnum lengst af fyrir utan virðulegan forseta en það var hv. þm. Pétur Blöndal sem viðurkenndi að hann hefði snarsnúið allri sinni pólitík svo manni virtist sem hann vissi hvorki í þennan heim né annan. Og hv. þm. og varaformaður Samfylkingarinnar, Ágúst Ólafur Ágústsson, datt hér inn í hálftíma fyrir matarhlé með ræstiduft og vítissóda að vopni til að reyna hvítþvo Samfylkinguna í þeirri hörmung sem við ræðum um hér.

Hvar voru hinir 40, virðulegi forseti? Þeir voru á harða flótta undan því að standa fyrir máli sínu. Samfylkingin vegna þess að hún er búin að éta svo mikið af kosningaloforðum að henni er orðið óglatt og má vart mæla og sjálfstæðismenn vegna þess að þeir vilja ekki viðurkenna að þeir hafa enga stjórn á því sem hér þarf að gera.

Hér var til umræðu í gærkvöldi mál sem varðar eftirlaun þingmanna, ráðherra og annarra háttsettra embættismanna. Umræðan fór fram seint um kvöld að fjarstöddum flestum forkólfunum. Og hverjir treystu sér til að taka þátt í þeirri umræðu? Eðli málsins samkvæmt flutti fjármálaráðherra málið. Einn einasti stjórnarliði hv. áðurnefndur þingmaður, Pétur H. Blöndal, tók þátt í umræðunni og ég verð að viðurkenna að ég virði hann mikils fyrir að hann skuli láta sig varða að ræða við aðra þingmenn um þau mál sem hér eru borin upp þótt ekki sé nema í stuttum andsvörum. Hvers vegna ætli hinir 40 hafi ekki haft áhuga á því, virðulegi forseti? Var það vegna þess að þeir voru uppteknir við smákökubakstur í gærkvöldi eða var það vegna þess að þeir voru með óbragð í munninum yfir því?

Við upphaf þingfundar í morgun var svo rætt um að haldinn yrði fundur sem hér stendur yfir í kvöld. Stjórnarandstaðan bað um svigrúm til að vinna í þeim stóru málum sem eru til umræðu þessa dagana. Hv. þm. og formaður þingflokks Samfylkingarinnar tók þátt í þeirri umræðu. Hvað hafði hann fram að færa? Jú, þá staðreynd að hér valtar ríkisstjórn yfir þingi og lýðræði og meiri hlutinn í þinginu fylgir með, vonandi gegn sinni betri vitund. Þingfundir eru haldnir frá morgni til kvölds. Lítið sem ekkert svigrúm er fyrir þingmenn að vinna að þessu máli. Og skilaboð þingflokksformanns Samfylkingarinnar voru þau að best væri að drífa þetta af svo verði ekki eins mikil vinna í næstu viku.

Staðreyndin er sú að menn hafa ekki hugmynd um hvert þeir eru að fara með þjóð sína sem situr hnípin og skuldum vafin og óskar þess að fá að velja sér nýja forustu sem hún treystir betur. En, nei, það er ekki í boði. Of mikið er í húfi fyrir stjórnarliðana sjálfa. Og svo eru mál keyrð í gegn á óeðlilegum ógnarhraða án þess að fyrir liggi nokkrar forsendur.

Það mál sem rætt hefur verið um í dag, ráðstafanir í ríkisfjármálum, bera vott um það. Eldri borgarar, öryrkjar, sjúklingar, barnafólk og bændur fá úthlutað þungum byrðum í jólagjöf frá ríkisstjórninni sem að sjálfsögðu er fjarverandi. Og ofan á það mega bændur í þessu landi taka sinn skerf þar sem nú á að rifta einhliða samningi sem gerður hafði verið við þá án þess svo mikið sem rætt hafi verið við þá eitt einasta orð. En samningum er ekki bara rift einhliða með þessum hætti án þess að rætt sé við samningsaðila.

Við vitum það að kostnaðinum af þessum samningi sem ríkisstjórnin er að spara verður velt út í matvælaverð. Og hverjir borga fyrir það? Það eru þeir sem hafa flesta munna að metta. Telur ríkisvaldið sig ekkert skuldbundið af þeim samningum sem það gerir? Ein af meginreglum samningaréttar er að samningar skuli standa. En sú ríkisstjórn sem nú situr í skjóli hins mikla meiri hluta sem náðist fram í síðustu kosningum með brellum og svikum telur sig ekki þurfa að standa við nokkurn skapaðan hlut. Mér fyndist ekki ólíklegt að bændur létu reyna á þessi mál fyrir dómstólum og kannski ekki í þessu eina máli.

Hér voru sett galopin neyðarlög að kvöldi 6. október síðastliðinn. Þau lög hafa verið notuð í mjög vafasömum tilgangi, svo ekki sé meira sagt. Menn reyndu að gefa alþjóðasamfélaginu fingurinn í sérkennilegustu útfærslu sem helstu lagaspekingar landsins hafa séð. Menn reyndu að nota neyðarlögin til að brjóta ekki bara stjórnarskrána heldur lögfesta mannréttindasáttmála Evrópu og EES-samninginn alla á einu bretti. Í skjóli stjórnskipulegs neyðarréttar sem áhöld eru um að sé til enda hefur honum að minnsta kosti einu sinni verið hafnað af stjórnarskrárnefnd sem þá taldi að lög um mannréttindi skyldu halda á öllum tímum.

En ríkisstjórnin kærir sig kollótta. Hún telur sig alvitra og hafa öll völd í hendi sér. Og á þeim forsendum veður hún áfram þessa dagana án þess að vita nokkuð hvert hún stefnir. Og þjóðin horfir á skelfingu lostin. Þjóðin sem fyrir nokkrum mánuðum var ríkasta þjóð í heimi og þjóðin sem fyrir nokkrum mánuðum mældist hæst í samanburði við aðrar þjóðir í lífskjararannsóknum.

Þessi sama þjóð horfir nú upp á að ríkisstjórnin teiknar upp ný fjárlög og þingmönnum er gefinn fullkomlega óásættanlegur tími til að afgreiða þau. Hún getur ekki svarað því hverjar byrðarnar verða sem lagðar verða á fólkið en leggur sjálf þungar byrðar á herðar þeirra sem minnst mega sín.

Í fúlustu alvöru, virðulegi forseti, þá er ekkert mjög langt í litlu stúlkuna með eldspýturnar. Hún stendur núna fótköld og krókloppin í röðinni hjá Hjálparstofnun kirkjunnar, mamma hennar er veik og litlu systkinin hennar svelta. Þetta er sá veruleiki sem við horfum upp á. Og ég veit til þess að fólk sem býr í nágrenni við úthlutunarstaði hjálparstofnana fer að heiman þá daga sem úthlutun stendur yfir vegna þess að því er um megn að horfa upp á hvernig raðirnar lengjast og hversu bugað fólkið er. Og þetta er sama fólkið og ríkisstjórnin ætlast til að gefi enn meira eftir og taki á sig enn þyngri byrðar. Ég óttast, virðulegi forseti, að það muni einhverjir bugast endanlega. Ég er orðin verulega hrædd um það.

Í umræðu um þessar óhugnanlegu aðgerðir hafa þeir örfáu stjórnarliðar sem þorað hafa að taka þátt í henni spurt um það hvar við hin viljum skera niður. Það hefur þó gjarnan verið spurt í frammíköllum og með háði en ekki þannig að þeir þori að taka virkan þátt og bera höfuðið hátt enda er ekkert til að bera höfuðið hátt yfir.

Það vita það allir að staða okkar er því miður sú að það þarf að fara í óvinsælar niðurskurðaraðgerðir. Hvorki framsóknarmenn né aðrir stjórnarandstöðuþingmenn horfa fram hjá því. Ég minni á að í haust, og fyrir bankahrunið, lagði þingflokkur framsóknarmanna fram þingsályktunartillögu um stofnun samvinnu- og efnahagsráðs þar sem gert var ráð fyrir að forustumenn allra flokka auk helstu hagsmunaaðila samfélagsins settust yfir þann vanda sem þá var yfirvofandi og fyndu leiðir til að efla og styrkja íslenska atvinnuvegi og íslenskt efnahagslíf til frambúðar. Hefði ekki verið, virðulegi forseti, viturlegt fyrir hæstv. ríkisstjórn að þiggja það góða boð í stað þess að kasta hér fram korteri fyrir jól flausturslega unnum tillögum um að keyra eldri borgara, öryrkja, sjúklinga, barnafólk og bændur í þrot? Hefði það ekki verið viturlegra, virðulegi forseti? Við gætum vart verið í verri stöðu en nú er.

En þetta snýst auðvitað allt um það að menn ríghalda í valdið. Menn hafa sett hver neyðarlögin á fætur öðrum en það eina sem ekki má hrófla við er þeirra eigið vald. Hæstv. forsætisráðherra hefur sagt að hann muni ekki skorast undan þeirri ábyrgð að koma fólki í öruggt skjól. Fólkinu sem vill ekki að hann sitji við stýrið. Hann hefur líka sagt að lögum samkvæmt sé kosið á fjögurra ára fresti. Hann sagði það í umræðu um vantrauststillögu sem flutt var á ríkisstjórnina af stjórnarandstöðunni hér á þinginu fyrir skemmstu. En er það það eina sem ekki má breyta? Er það það eina sem ekki má breyta, virðulegi forseti, valdið sem hinir háu herrar sem taka sér þessa dagana? Og formaður Samfylkingarinnar mætti nú fara að rifja upp Borgarnesræðurnar sem snerust um harkalega gagnrýni á það sem hún sjálf í skjóli þingmanna sinna í þinginu hefur nú gerst sek um og var ekki lengi að komast á bragðið.

Á meðan fyrrverandi ríkisstjórn sat við völd gagnrýndi hún nefnilega harðlega það að einstakir ráðherrar kæmu pólitískum samverkamönnum á hina opinberu jötu. En hvað gerir hún svo sjálf? Á sama tíma og boðaður er niðurskurður í utanríkisþjónustunni þá hefur hún skipað fjóra nýja sendiherra, þar af einn fyrrverandi þingmann Sjálfstæðisflokksins og nú síðast góða vinkonu sína sem eingöngu hafði unnið með hæstv. ráðherra í eitt ár, eitt einasta ár í utanríkisráðuneytinu. Þetta eru vinnubrögð formanns Samfylkingarinnar sem hefur ekki eingöngu gerst sek um trúnaðarbrot vegna beinna kosningaloforða heldur alvarlegs brots á skyldum sínum.

Ég verð að taka það fram að það er auðvitað boðaður niðurskurður í utanríkisþjónustunni eins og annars staðar. En sá niðurskurður er tekinn af stórfelldri aukningu sem verið hefur í utanríkisþjónustunni enda hafa framlög til hennar aukist mjög mikið. Ég minni á að hún kostaði 5,5 milljarða kr. árið 2004 en gert var ráð fyrir að hún kostaði nærri 12 milljarða kr. á árinu 2009. Það hefur núna verið skorið niður í 9 milljarða kr.

Ég nefni Samfylkinguna sérstaklega hér, virðulegi forseti, vegna þess að ég veit að fólk í samfélaginu bar meira traust og hafði meiri væntingar til Samfylkingarinnar en Sjálfstæðisflokksins í ljósi þeirra kosningaloforða og þeirra stóru orða sem féllu í aðdraganda kosninga. Orða sem nú eru í besta falli áfellisdómur yfir þeim flokki og þeim sem honum tilheyra hér á hinu háa Alþingi.

Virðulegi forseti. Hér er til umræðu frumvarp til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum. Þetta frumvarp er áfellisdómur yfir ríkisstjórninni. Ekki eingöngu vegna þeirra vinnubragða sem ég hef nú lýst þar sem skortur á upplýsingum gerir mönnum algerlega ókleift að vinna þetta verk, þar sem ráðherrar taka ákvarðanir um að ögra réttarríkinu og telja sig ekki bundna af lögum eins og aðrir í þessu landi, það er líka vegna þeirrar stefnu sem birtist í þessu plaggi.

Gamla fólkið sem fyrir kann betur en nokkur annar að gera mikið úr litlu skal bera þyngri bagga en margur. Öryrkjarnir og sjúklingarnir sem vegna veikinda sinna eiga óhægt um vik skulu líka bera þyngri bagga en margur. Barnafólkið sem hefur marga munna að metta og leggur sig fram um að skapa komandi kynslóðir ber þyngri bagga en margur. Og bændur sem vart teljast til hátekjufólks og ganga til gegninga bæði kvölds og morgna og vinna hörðum höndum þess á milli m.a. til að tryggja matvælaöryggi þjóðarinnar, þeir mega bera þyngri bagga en margur. Er þetta ásættanlegt, virðulegi forseti?

Og hvernig eiga hv. þingmenn hvar svo sem þeir hafa skipað sér í flokk að meta ástandið, afleiðingarnar og þessar aðgerðir? Hvernig á ég að geta sagt til um það hvernig ég hefði viljað skipa málum öðruvísi? Ég hef engar upplýsingar um það og líklega ekki ríkisstjórnin heldur. Ég veit það eitt að ég tel of langt gengið hvað þá hópa varðar sem ég hef rætt hér sérstaklega. Það hefur illa verið haldið á málum og niðurskurðarhnífnum er ómarkvisst beitt og fyrir verða þeir sem minnst mega sín. Það er jólagjöfin frá ríkisstjórninni í ár, virðulegi forseti.