136. löggjafarþing — 63. fundur,  19. des. 2008.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

243. mál
[21:28]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka fyrir síðbúið svar en verð að taka fram að hv. þingmaður hefur misskilið fyrirspurn mína þó ég hafi komið með hana í þrígang í dag. Ég spurði hvað hefði verið upplýst á fundi hv. efnahags- og skattanefndar. Sjálf sat ég fund hv. heilbrigðisnefndar og því þurfti ekki að segja mér hvað kom fram á þeim fundi, hv. þingmaður.

Ég var að spyrja hvernig efnahags- og skattanefnd hefði afgreitt þessar 250 millj. kr. sem vantar upp á samkvæmt X. kafla þess frumvarps sem við hér ræðum. Fyrst að spítalagjaldið fyrir innlögn á spítala á ekki að vera upp á nema 100–110 millj. vantar 250 millj. kr. Hv. þingmaður vísaði til meirihlutaálits hv. heilbrigðisnefndar og sagði að það ætti þá að hækka önnur gjöld. Ég hlýt að spyrja hv. þingmann hvaða gjöld það eru. Eru það kannski þessar 4.000 kr. á slysa- og bráðamóttökuna? Eru það 2.100 kr. sem það kostar að fara á göngudeild ef maður hittir annan en lækni? Eru það kannski þessar 3.100 kr. + 40% af taxta sérgreinalækna ef maður ætlar að hitta sérfræðing? Eru það kannski 3.000 kr. sem maður borgar fyrir krabbameinsleit í legi eða brjóstum? Á kannski að hækka það fyrir keiluskurðinn, 6.300 kr., eða fyrir kransæðaþræðingarnar, 6.200 kr.? Eða fyrir geisla- og myndgreiningu, 1.800 kr.?

Ég spyr eins og þjóðin hlýtur að spyrja: Hvar á að taka 360 millj. kr.? Samkvæmt þessu frumvarpi átti að taka það með spítalaskattinum en nú er því vísað eitthvað annað. Við sögðum í minni hluta hv. heilbrigðisnefndar að þetta væri opinn tékki sem væri verið að senda á hæstv. heilbrigðisráðherra og það samrýmist ekki því fjárveitingavaldi sem hér er. (Forseti hringir.) Það er afsal á því valdi sem hér á að liggja.