136. löggjafarþing — 63. fundur,  19. des. 2008.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

243. mál
[21:31]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það undrar mig stórlega að hv. þm. Pétur Blöndal sé ánægður með að vísa til ummæla starfsmanna heilbrigðisráðuneytis á fundi heilbrigðisnefndar um að þetta hafi allt saman verið misskilningur hjá fjármálaráðuneytinu, að fjárlagaskrifstofa fjármálaráðuneytisins hafi bara misskilið þetta. Þess vegna sé það rangt sem segir í greinargerð með frumvarpinu og rangt sem segir í umsögn fjárlagaskrifstofunnar að það eigi ekki að taka 360 millj. af spítölunum heldur af einhverju allt öðru. Það undrar mig stórlega að hv. þingmaður sé ánægður með að þess vegna verði þessum 260 millj. kr. dreift einhvers staðar ofan úr ráðuneyti á sjúklinga þessa lands sem þurfi að leita sér læknisþjónustu.

Ég vil rifja upp að það er ekki bara um þetta að tefla á næsta ári. Það á líka að hækka sjúklingaskattana um ríflega 700 millj. kr. á næsta ári vegna hækkunar á lyfjum. Þessi tæp 18% sem reiknuð hafa verið beint úr buddu sjúklinga inn í heilbrigðisþjónustuna — það er svo langt í frá að það hafi staðið í stað. Það hefur þvert á móti verið að hækka, hv. þingmaður. Við erum að tala um að heilbrigðisþjónustan muni á næsta ári kosta eitthvað ríflega 112 milljarða kr. 18% af því gera eitthvað um 20 milljarða, eins og ég sagði áðan. Þarna er verið að taka gjöld af þeim sem verst eru settir. Verið er að finna upp nýjan skattstofn til að láta þá borga sem geta enga björg sér veitt og verða að leggjast inn á sjúkrahús að læknisráði, verða að vera rúmliggjandi, og það er þar sem verið er að brjóta í blað.

Eins og ég sagði áðan er það miður að svokallaður jafnaðarmannaflokkur Íslands skuli láta þetta yfir sig ganga en ég undrast lítillæti hv. formanns efnahags- og skattanefndar í þessu sambandi.