136. löggjafarþing — 63. fundur,  19. des. 2008.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

243. mál
[21:42]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og skattn. (Pétur H. Blöndal) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ef ég ætla að semja við einhvern mann þarf ég helst að vera sannfærður um málstað minn, það er mjög mikilvægt. Ég má ekki taka yfir málstað andstæðingsins, það er mjög mikilvægt. Þetta er eiginlega það sem ég legg samningsmönnum okkar til í veganesti. Þeir eiga að trúa því að við höfum á réttu að standa. Við eigum ekki að borga þessa Icesave-reikninga. Við erum búnir að uppfylla öll skilyrði eða tilskipanir Evrópusambandsins. Við erum með innlánstryggingarsjóð sem Bretar eru ekki með. Við erum búnir að byggja upp kerfi nákvæmlega samkvæmt þeim reglum, sendum lögin út og þeir samþykktu þau, komu alla vega ekki með athugasemdir. Við erum að byggja upp þennan sjóð og þetta er sem sagt alveg í fullkomnu lagi. Það sem er ekki í lagi er tilskipunin sjálf, það eru reglur Evrópusambandsins. Þær eru gallaðar. Fjármálaráðherra Breta hefur komið auga á það. Hann er búinn að senda bréf til Evrópusambandsins og hefur beðið þá um að breyta reglunum vegna þess að hann kærir sig ekki um að breskir skattgreiðendur borgi fyrir innlán erlendra banka í Bretlandi.

Hann ætlast til að íslenskir skattgreiðendur borgi fyrir innlán íslenskra banka í Bretlandi. Hann kemur með bestu rök samningsmanna okkar til að ræða við Breta. Hann er búinn að segja að skattgreiðendur eigi ekki að borga fyrir innlánin. Sem sagt: Bankakerfið á sjálft að borga þetta og til þess höfum við 18 milljarða og þeir geta fengið þá og verði þeim að góðu.