136. löggjafarþing — 63. fundur,  19. des. 2008.

fjáraukalög 2008.

239. mál
[21:44]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Gunnar Svavarsson) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti um frumvarp til fjáraukalaga fyrir árið 2008 frá meiri hluta fjárlaganefndar. Undir álitið skrifa auk mín hv. þm. Kristján Þór Júlíusson, varaformaður fjárlaganefndar, Guðbjartur Hannesson, Illugi Gunnarsson, Ásta Möller, Steinunn Valdís Óskarsdóttir, Ármann Kr. Ólafsson og Björk Guðjónsdóttir.

Nefndarálitið er í sjálfu sér stutt og skorinort, í því er fjallað um nokkrar breytingartillögur en einnig um það verkefni sem fjárlaganefnd féll í skaut í framhaldi af því að mælt hafði verið fyrir umræddu frumvarpi og því vísað til nefndarinnar.

Nefndin hafði að vísu frumvarpið til athugunar í mjög stuttan tíma, eins og menn muna var frumvarpið til umræðu núna á þriðjudaginn. Vil ég nota tækifærið og þakka hv. þingmönnum í fjárlaganefnd fyrir að heimila það að byrja upplýsingafundi vegna frumvarpsins strax þann sama dag. Það skipti verulegu máli í ljósi þess tíma sem við höfðum. Það er einnig ljóst að frumvarpið barst afar seint inn í þingið. Það er kannski ekki til eftirbreytni en vissulega eru mjög sérstakir tímar uppi í samfélaginu og hugsanlega ástæða fyrir því af hverju frumvarpið barst hingað svo seint.

Virðulegi forseti. Nefndin leitaði skýringa hjá fjármálaráðuneytinu og fagráðuneytum varðandi beiðnir um auknar fjárheimildir. Fjármálaráðherra upplýsti nefndina á fundi 12. nóvember sl. um að í samræmi við 33. gr. laga um fjárreiður ríkisins, nr. 88/1997, hefði verið tekin sú ákvörðun í ríkisstjórn að veita heimild til að leggja 385 milljarða í nýju bankana og leggja sparisjóðunum til stofnfé í samræmi við lög nr. 125/2008. Hæstv. ráðherra greindi jafnframt frá því að lagt hefði verið til 2,3 milljarða kr. hlutafé við stofnun nýju bankanna, þrisvar sinnum 775 millj. kr. Ætlunin er að skoða það mál enn frekar á milli 2. og 3. umr.

Nefndinni hafa borist óskir um 6. gr. heimildir vegna fjáraukalagatillagna fyrir 3. umr., hún hefur tekið þær fyrir á fundi sínum en um þær verður ekki fjallað á þessum þingfundi, virðulegi forseti.

Meiri hlutinn hefur enn fremur farið yfir þau erindi sem bárust nefndinni og gerir 10 breytingartillögur við frumvarpið sem samtals nema 120,5 millj. kr. til hækkunar. Einstakar tillögur eru skýrðar í álitinu auk þess sem fjallað verður nánar um þær í framsögu minni á eftir.

Nefndin mun á milli 2. og 3. umr. kalla eftir frekari upplýsingum um einstaka málaflokka, svo sem varðandi breytingar á 5. og 6. gr. fjárlaga fyrir árið 2008.

Vil ég þá gera grein fyrir einstökum breytingartillögum.

Lögð er til fjárheimild í tvennu lagi til handa æðstu stjórn ríkisins, Alþingis, í fyrsta lagi um aukinn kostnað á Alþingi, 10 millj. kr. hækkun til að styrkja rekstrargrunn en forsætisnefnd breytti greiðslum ferðakostnaðar í kjördæmi frá og með árinu 2008 þannig að hann er nú sá sami fyrir alla alþingismenn og öll kjördæmi. Síðan er gerð tillaga um 30 millj. kr. framlag til að standa straum af kostnaði við rannsóknarnefnd sem er ætlað að rannsaka aðdraganda og orsakir falls íslensku bankanna í samræmi við lög sem samþykkt voru 12. desember sl.

Þá er lagt til að fjárheimild til menntamálaráðuneytis verði aukin um 55 millj. kr. Það er í fyrsta lagi stofnkostnaður til Framhaldsskólans á Laugum vegna frágangsverkefnis við torg við skólann. Skólinn varð nýlega 20 ára gamall, umrætt verkefni hefur verið í bígerð í nokkuð langan tíma og var hafin undirbúningsvinna vegna þessa verkefnis og undirbúningsfrágangur fyrir 30 ára afmælið sem var haldið upp á í haust.

Þá er gerð tillaga um 4 millj. kr. framlag til Bátasafns Breiðafjarðar á Reykhólum sem upphaflega var ætlað Byggðasafni Snæfellinga til sama verkefnis. Bátasafn Breiðafjarðar á Reykhólum hafði óskað eftir tilflutningi á þessari fjárhæð þar sem Byggðasafn Snæfellinga óskaði ekki eftir að nýta framlagið.

Þá var gerð tillaga um að styrkja rekstrargrunn Sinfóníuhljómsveitarinnar um 16 millj. kr. og auk þess gerð tillaga um 20 millj. kr. framlag sem ætlað er til stækkunar íþróttahúss Íþróttafélags fatlaðra í Reykjavík. Það verkefni hefur verið hér á fjárlögum í ein þrjú ár í framhaldi af samkomulagi Reykjavíkurborgar við íþróttafélagið en þetta tengist rekstri félagsins við Hátún og samvinnuverkefni þess við svokallaða HL-stöð fyrir hjarta- og lungnasjúklinga. Þar er verið að ganga frá stækkun á húsnæðinu, sal og tengibyggingu.

Þá er gerð tillaga um að heimila sveitarfélaginu Grímseyjarhreppi að nýta framlag sem það fékk vegna fjölnota menningarhúss en verði notað frekar til að endurbæta sundlaug í Grímsey þar sem ekki eru lengur áform um að reisa menningarhúsið.

Um er að ræða tillögur, virðulegi forseti, til heilbrigðisráðuneytis um 5 millj. kr. og sú upphæð er ánöfnuð Félagi áhugafólks og aðstandenda Alzheimerssjúkra og annarra skyldra sjúkdóma en fjárveiting til félagsins féll niður við afgreiðslu fjárlaga ársins. Þykir mér sem formanni fjárlaganefndar miður að það hafi gerst en því miður misfórst erindi félagsins í meðförum okkar í fjárlaganefnd og hlaut aldrei yfirferð heilbrigðisnefndar eða fjárlaganefndar á sínum tíma. Viðkomandi félag, FAAS, hafði verið á fjárlögum um nokkurra ára skeið.

Síðan er gerð tillaga um 7,5 millj. kr. framlag til samgönguráðuneytisins vegna tveggja verkefna, annars vegar er tillaga um 6 millj. kr. framlag til dýpkunar hafskipabryggju á Þórshöfn og svo 1,5 millj. kr. framlag til lendingarbóta við Selsvör við norðanverðan Steingrímsfjörð. Umsókn barst um það verkefni og Alþingi hafði þegar úthlutað til þess á árinu en ljóst varð að umrætt verkefni var mun dýrara í framkvæmd en ráð var fyrir gert. Um er að ræða mikilvægan lendingarstað á þessum stað og sem betur fer hafði ég nokkra hv. þingmenn úr Norðvesturkjördæmi sem gátu frætt mig vel um þessi mál eins og hv. þingmenn úr Norðvesturkjördæmi gera jafnan í fjárlaganefnd. Á stundum má ætla að það séu einungis þingmenn úr Norðvesturkjördæmi í nefndinni. (ÁI: Er það ekki svo?) (Gripið fram í.) Þetta var bara sagt til uppörvunar.

Að lokum eru framlög til umhverfisráðuneytisins upp á 13 millj. kr. Það er í fyrsta lagi hið svokallaða Green Globe verkefni sem nokkur sveitarfélög á Snæfellsnesi hafa komið sér saman um. Það verkefni er hugsanlega öðrum til eftirbreytni en það hefur fengið alþjóðlega vottun og hafa sveitarfélögin á Snæfellsnesi gengið fram í nokkur ár við að kynna öðrum sveitarfélögum, fyrirtækjum og áhugasamtökum þetta framlag sitt til umhverfismála í raun og fjölmargir horft til þess að geta nálgast slíka viðurkenningu eins og þessi fjögur sveitarfélög. Hins vegar fer framkvæmdaráð Snæfellinga með þetta mál fyrir þeirra hönd.

Að lokum er gerð tillaga um 7 millj. kr. framlag til að breyta ósi Skjálfandafljóts og koma honum í eldri farveg. Þetta er verkefni sem Þingeyjarsveit hefur staðið fyrir og fjölmargir haft áhyggjur af. Sandarnir niðri við ósinn hafa breytt farveginum og hann hefur færst til austurs og í áttina að Laxá. Þetta hefur líka verið samvinnuverkefni við bændur á staðnum og var farið fram með ákveðna hönnunarvinnu og rannsóknarvinnu í sumar. Fjölmargir óttast að ef ekkert verður að gert geti þetta haft alvarlegar afleiðingar fyrir lífríkið á staðnum. Þetta verkefni er unnið í samvinnu við Landgræðslu ríkisins eins og önnur fyrirhleðsluverkefni hér á landi. Ég ítreka að þetta verkefni er í sjálfu sér í góðum farvegi þrátt fyrir að ekki hefur náðst að vinna eins mikið og áætlað var enda ekki fyrir hendi fullt fjárframlag til verksins í ár.

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að hafa þetta lengra og tefja þingfundinn enn frekar. Vissulega hefði ég sem formaður fjárlaganefndar viljað hafa rýmri tíma til að fjalla um frumvarpið. Fyrst ríkisstjórnin kom ekki með fleiri tillögur við 2. umr. var tekin ákvörðun um að við mundum klára þetta hér til þinglegrar meðferðar. Við fengum öll ráðuneytin til að fjalla um þessar tillögur og tókum til þess drjúgan tíma, vorum með ráðuneytin í tvo heila daga. Það voru langar setur hjá þeim og þau skiluðu okkur sum síðan aukaupplýsingum sem við kölluðum eftir, minnisblöðum og öðru. Í sjálfu sér var minna mál að fjalla um tillögurnar sem bárust frá áhugasamtökum, sveitarfélögum eða öðrum eins og hér er gerð grein fyrir. Þær voru tæplega 30 og góð samstaða í nefndinni um afgreiðslu þeirra. Mig minnir að minni hlutinn styðji þær breytingartillögur sem meiri hlutinn fer fram með, enda sú vinna sem var unnin á þeim lokastigum unnin í sátt og samlyndi að hætti Hafnarfjarðarkrata.

Virðulegi forseti. Ég ítreka enn á ný þakklæti mitt til nefndarmanna fyrir stutt og snörp vinnubrögð varðandi fjáraukalagafrumvarpið og ég geri ráð fyrir að nefndarmenn séu tilbúnir til að taka aðra lotu með það fyrir 3. umr.