136. löggjafarþing — 63. fundur,  19. des. 2008.

kolvetnisstarfsemi.

152. mál
[23:07]
Horfa

Frsm. meiri hluta iðnn. (Katrín Júlíusdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti um frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum vegna kolvetnisstarfsemi frá meiri hluta iðnaðarnefndar.

Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund fjölda gesta.

Umsagnir bárust frá Byggðastofnun, Brunamálastofnun, Bændasamtökum Íslands, Eyþingi – sambandi sveitarfélaga í Eyjafirði og Þingeyjarsýslum, Fjórðungssambandi Vestfirðinga, Hafrannsóknastofnuninni, Landhelgisgæslu Íslands, Landssambandi íslenskra útvegsmanna, Landsvirkjun, Náttúrufræðistofnun Íslands, Orkustofnun, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Samtökum atvinnulífsins og Samtökum iðnaðarins, Samtökum fjármálafyrirtækja, Siglingastofnun, Skipulagsstofnun og Umhverfisstofnun, auk þess bárust minnisblöð frá iðnaðarráðuneytinu. Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á ýmsum lögum sem heyra undir iðnaðarráðuneyti og umhverfisráðuneyti vegna kolvetnisstarfsemi.

Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar á ákvæðum laga um leit, rannsóknir og vinnslu kolvetnis, þess efnis að skerpt verði á skilyrðum varðandi útgáfu leyfa og að svæðisgjöld verði lækkuð, sem og leyfisgjöld fyrir rannsóknarleyfi. Á móti verði tekið upp sérstakt umsóknargjald sem leggist á alla umsækjendur. Þá er gert ráð fyrir að ríkið geti stofnað hlutafélag um þátttöku í vinnslu kolvetnis.

Virðulegi forseti. Í frumvarpinu eru einnig lagðar til breytingar á skipulags- og byggingarlögum, lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir, lögum um mat á umhverfisáhrifum, lögum um varnir gegn mengun hafs og stranda og lögum um brunavarnir. Með breytingunum er ætlunin að setja skýrari lagaumgjörð um skipulags-, mengunarvarna- og öryggismál í tengslum við rannsóknir, leit og vinnslu kolvetnis á hafsvæðunum umhverfis Ísland. Hlutverk Skipulagsstofnunar, Umhverfisstofnunar og Brunamálastofnunar er víkkað út þannig að þau taki einnig til starfsemi við rannsóknir, leit og vinnslu kolvetnis innan efnahagslögsögu og landgrunnsmarka Íslands. Lagt er til að Skipulagsstofnun ákvarði um matsskyldu samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum, annist gerð og framkvæmd skipulagsáætlana, veiti framkvæmdaleyfi og hafi eftirlit með leyfisskyldri starfsemi. Umhverfisstofnun veiti starfsleyfi og hafi eftirlit með starfsemi sem getur haft í för með sér mengun í hafi eða á hafsbotni. Brunamálastofnun annist eldvarnaeftirlit, staðfesti öryggismat vegna mannvirkja á svæðinu og endurskoði það mat reglulega.

Virðulegi forseti. Hv. iðnaðarnefnd leitaði þó nokkurra umsagna eins og fram hefur komið en hv. umhverfisnefnd fjallaði einnig um málið og eftir umfjöllun þessara tveggja nefnda leggjum við í hv. meiri hluta iðnaðarnefndar fram breytingartillögur við þetta frumvarp í 15 liðum. Ástæðan er sú að nefndinni bárust nokkrar athugasemdir við frumvarpið þó að umsagnaraðilar væru flestir jákvæðir gagnvart starfseminni sjálfri. Ákveðnir þættir frumvarpsins voru umdeildir og við því brást nefndin, bæði iðnaðarnefnd og jafnframt umhverfisnefnd sem gaf okkur umsögn sína. Iðnaðarnefnd tók síðan umsögn umhverfisnefndar upp á sína arma og gerði breytingartillögur mjög í anda gagnrýni meiri hluta umhverfisnefndar vegna þess að umhverfisnefnd skilaði samhljóða áliti utan fulltrúa Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs í þeirri nefnd.

Töluverð umræða skapaðist í nefndinni um skipulagslögsögu sveitarfélaga á strandsvæðum og kannski var stærsta ágreiningsefnið eða umkvörtunarefnið það að fram komu athugasemdir um að aðkoma sveitarfélaga væri ekki nægilega tryggð í þeim tilfellum sem kolvetnisstarfsemi kæmi nær ströndum. Rifjuð var upp gömul deila sem hefur átt sér stað milli ríkis og sveitarfélaga en Samband íslenskra sveitarfélaga segir í áliti sínu að samkvæmt áliti félagsmálaráðuneytisins frá 19. október árið 2000 miðist mörk sveitarfélaga til hafsins við netlög svokölluð og gildir þetta einnig um netlög við hólma og eyjar sem tilheyra bújörðum. Innan þessara marka fara sveitarfélög með skipulagsvald og útgáfu framkvæmdaleyfa. Þessi deila dúkkaði upp í okkar vinnu vegna þess að henni var aldrei lokið. Skipuð var nefnd á vegum félagsmálaráðherra árið 2002 sem þá fór með málefni sveitarfélaga til að fjalla um þetta álitamál. Ekki náðist að mynda sameiginlega afstöðu til þessarar spurningar en afstaða fulltrúa Sambands íslenskra sveitarfélaga var sú að þessi mörk væru allt of knöpp miðað við nútímaaðstæður.

Virðulegi forseti. Meiri hluti iðnaðarnefndar samþykkir og tekur undir að það hljóti að skipta sveitarfélög og íbúa þeirra mjög miklu máli hvaða starfsemi er leyfð við strönd eða í fjörðum í sveitarfélögum og því sé nauðsynlegt að tryggja þátttöku sveitarfélaganna í ákvörðun um það. Við föllumst á það sjónarmið og leggjum til breytingu á frumvarpinu til að mæta þessum sjónarmiðum til að tryggja umsagnarrétt viðeigandi sveitarfélags komi til þess að sótt verði um leyfi á svæði sem er innan einnar sjómílu utan áðurnefndra netlaga.

Virðulegi forseti. Þetta er í anda þeirrar niðurstöðu sem hv. sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd hefur komist að í umsögn sinni um málefni er varða fiskeldi. Meiri hlutinn tekur jafnframt undir það sem kemur fram í umsögnum Fjórðungssambands Vestfjarða og Sambands íslenskra sveitarfélaga um mikilvægi þess að ljúka vinnu við að skilgreina lögsögu sveitarfélaga til hafsins, eins og lagt var upp með árið 2002 sem ég hef áður komið inn á en var ekki lokið við. Við leggjum mikla áherslu á það í meiri hluta iðnaðarnefndar að þessari vinnu verði lokið hið allra fyrsta. Þá skapaðist mikil umræða um skipulagsþátt málsins sem nokkuð var gagnrýndur. Eftir yfirferð nefndarinnar leggur meiri hlutinn til þó nokkrar viðbætur og breytingar á frumvarpinu eins og áður hefur komið fram.

Í fyrsta lagi leggur meiri hlutinn til að kveðið verði á um að Orkustofnun skuli leita umsagnar hjá viðeigandi sveitarfélagi komi til þess að sótt verði um leyfi á svæði sem er innan við 1 sjómílu utan netlaga. Með því er komið til móts við sjónarmið Sambands íslenskra sveitarfélaga. Sambærilega breytingartillögu er að finna varðandi afgreiðslu rannsóknar- og vinnsluleyfa.

Í öðru lagi leggur meiri hlutinn til breytingar sem fjalla um nánari útfærslu á skilyrðum varðandi skipulag leyfishafa og starfsemi hans hér á landi. Annars vegar er lagt til að kveðið verði á um að leyfishafi skuli hafa skipulag sem tryggir sjálfstæða stjórnun og umsjón framkvæmda frá Íslandi á öllum þáttum tengdum kolvetnisstarfsemi sinni hér á landi. Í þessu felst að öll umsýsla og þjónusta við leyfishafa, rekstur og áhafnaskipti fari fram á Íslandi. Í þessum tilgangi verði Orkustofnun heimilt að setja sérstök skilyrði er lúta að skipulagi og eiginfjárgrunni leyfishafa. Slík regla mundi skapa skilyrði til uppbyggingar á þekkingu og iðnaði og efla þannig atvinnulíf í byggðum á þeim svæðum þar sem þjónustan yrði veitt. Hins vegar er lagt til að kveðið verði á um að kolvetnisstarfsemi og tengd starfsemi skuli rekin frá stöð á Íslandi.

Þessi breytingartillaga hlaut mikla umfjöllun í hv. iðnaðarnefnd og þó svo að hér liggi fyrir minnihlutaálit um málið í heild þá er um þetta þó nokkuð mikil samstaða. Þessi breytingartillaga byggist á norskri fyrirmynd og þar sem okkar ágætu vinir í Noregi hafa bæði mikla reynslu af kolvetnisstarfsemi og eru í sömu stöðu og við að vera hluti af EES-samningnum töldum við rétt að fara sömu leið og þeir hafa farið í þessum tilgangi til að tryggja að starfsemin eflist hér á landi og með öryggissjónarmið í huga.

Í þriðja lagi leggur meiri hlutinn til að lögfest verði að sá sem hlýtur rannsóknar- og vinnsluleyfi hér á landi skuli á gildistíma leyfisins greiða árlegt framlag til sérstaks menntunar- og rannsóknarsjóðs. Þarna erum við með fyrirmynd frá Færeyjum. Færeyingar hafa verið í sömu stöðu og við Íslendingar og þeir ákváðu að fara þá leið að búa til sérstakan sjóð í Færeyjum. Þeir sem fá heimild til að leita að olíu þar eða kolvetni leggja til fé í sérstakan sjóð til að efla þekkingu og reynslu í því fagi þar í landi. Meiri hluti nefndarinnar ætlar að leggja til að það sama verði gert hér. Þá er lagt til að í rannsóknar- og vinnsluleyfum skuli nánar kveðið á um stofnframlag og árlegt gjald í framangreindan sjóð. Ráðherra er heimilað að setja í reglugerð nánari ákvæði sem lúta að markmiði og hlutverki sjóðsins. Kveðið er á um að sjóðurinn skuli skipaður fulltrúum leyfishafa auk fulltrúa ríkisins sem iðnaðarráðherra skipar og skal hann hafa neitunarvald ef ákvarðanir stjórnar eru ekki í samræmi við hlutverk og markmið sjóðsins. Það er von okkar í meiri hluta hv. iðnaðarnefndar að með sjóðnum verði unnt að auka menntun og þekkingu á málum tengdum kolvetnisstarfsemi á Íslandi.

Í fjórða lagi leggur meiri hlutinn til að í rannsóknar- og vinnsluleyfi skuli kveðið á um stofnframlag, sem og árlegt gjald leyfishafa rannsóknar- og vinnsluleyfis í menntunar- og rannsóknarsjóð þann sem ég nefndi áðan.

Í fimmta lagi leggur meiri hlutinn til að Orkustofnun skuli starfrækja og leiða starf samráðshóps eftirlitsaðila vegna leitar, rannsókna og vinnslu kolvetnis við Ísland. Þetta er viðbót, virðulegi forseti, enn ein viðbótin, ein af 15 breytingum sem við gerum á því frumvarpi sem hér liggur fyrir, og teljum að verði mjög til bóta. Í starfshópi þessum munu 11 aðilar sitja. Það eru Brunamálastofnun, Flugmálastjórn Íslands, Geislavarnir ríkisins, Hafrannsóknastofnunin, Landhelgisgæslan, Orkustofnun, Siglingastofnun Íslands, Skipulagsstofnun og Vinnueftirlits ríkisins auk Umhverfisstofnunar. Því til viðbótar er lagt til að Náttúrufræðistofnun Íslands verði veitt aðild að starfshópnum. Það að Náttúrufræðistofnun Íslands skuli vera veitt aðild að þessum hópi er í samræmi við umsögn meiri hluta umhverfisnefndar Alþingis sem bendir á hið lögbundna hlutverk Náttúrufræðistofnunar sem sé m.a. að leiðbeina um hóflega nýtingu náttúrulegra auðlinda og aðstoða með rannsóknum við mat á verndargildi vistkerfa og náttúruminja. Þá starfar Náttúrufræðistofnun í nánu samstarfi við Hafrannsóknastofnunina að skráningu og gerð gagnagrunns um botndýr á Íslandsmiðum.

Þá skal ekki gleyma, virðulegi forseti, stöðu Náttúrufræðistofnunar í þeirri vinnu og þeim rannsóknum sem þegar hafa verið gerðar á Drekasvæðinu sem liggja því til grundvallar að við teljum að nú sé rétt að ganga skrefinu lengra og hefja útboð á rannsóknum á því hvort þarna sé kolvetni að finna — nú þegar hafa 57 sýni verið tekin á svæðinu og frumskoðun á sýnum þaðan bendir til þess að fjölbreytni botndýra sé mjög mikil og að víða séu tegundir mjög viðkvæmar fyrir raski, t.d. mjúkir kórallar. Það, virðulegi forseti, telur meiri hluti iðnaðarnefndar mjög mikilvægan hluta af þeim rannsóknum sem fara fram á þessu svæði og því sé rétt að Náttúrufræðistofnun sé í eftirlitsnefnd.

Í sjötta lagi leggur meiri hlutinn til að í bráðabirgðaákvæði við lög um leit, rannsóknir og vinnslu kolvetnis verði kveðið á um að iðnaðarráðuneyti og umhverfisráðuneyti skuli fyrir 1. janúar 2010 hafa lokið skoðun á því hvort þörf sé breytinga á ákvæðum 14.–18. gr. þeirra laga og ákvæðum skipulags- og byggingarlaga varðandi efni, gerð og málsmeðferð skipulagsáætlana og leyfisveitinga vegna einstakra framkvæmda á grundvelli leyfa til rannsóknar og vinnslu kolvetnis útgefnum af Orkustofnun. Breytingin tengist athugasemdum Samtaka atvinnulífsins og Samtaka iðnaðarins um fyrirkomulag leyfisveitinga og því að lagt er til að felld verði brott ákvæði frumvarpsins er varða breytingar á skipulags- og byggingarlögum. Þá fylgir, virðulegi forseti, að við leggjum til að felldar verði á brott þær greinar frumvarpsins sem fjalla um breytingar á skipulags- og byggingarlögum og fólu í sér útvíkkun á þeim sem við teljum að ættu að eiga sér stað í víðara samhengi.

Í umsögnum sem bárust nefndinni komu fram athugasemdir frá Skipulagsstofnun, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Samtökum atvinnulífsins og Samtökum iðnaðarins við að víkka út gildissvið laganna með þeim hætti sem gert er ráð fyrir í frumvarpinu. Í ljósi þessara athugasemda og ákvæða kolvetnislaga um afgreiðslu Orkustofnunar á rannsóknar- og vinnsluleyfum og samþykkis stofnunarinnar fyrir einstökum framkvæmdum þótti rétt að þessi þáttur málsins yrði skoðaður nánar. Þetta var nánast, virðulegi forseti, óumdeilt bæði innan nefndar og meðal umsagnaraðila. Í þessu sambandi var sérstaklega haft í huga að samkvæmt gildandi lögum ber Orkustofnun að leita umsagna umhverfisráðuneytis og sjávarútvegsráðuneytis áður en veitt eru rannsóknar- og vinnsluleyfi eða leyfi fyrir einstökum framkvæmdum. Þá var horft til þess að lögfestur hefur verið samráðshópur eftirlitsaðila þar sem allar stofnanir sem eftirliti eiga að sinna hafa sinn fulltrúa eins og áður hefur verið nefnt, t.d. Orkustofnun og Skipulagsstofnun. Samkvæmt tillögu að nýju bráðabirgðaákvæði ber iðnaðarráðuneyti og umhverfisráðuneyti að skoða þennan þátt mun betur.

Í áttunda lagi leggur meiri hlutinn til að orðið „leit“ verði fellt brott úr greinum frumvarpsins. Gera verður greinarmun á leit að kolvetni annars vegar og rannsóknum og vinnslu hins vegar. Leit er, eins og fram kemur í lögunum, bundin við rannsóknir sem ekki eru líklegar til að hafa í för með sér röskun, en framkvæmdir tengdar rannsóknum og vinnslu hafa í för með sér röskun. Því er eðlilegt að gera þarna mun á og miða við rannsóknir og vinnslu en ekki leit þegar verið er að fjalla um breytingar á umhverfislöggjöf.

Í níunda lagi, virðulegi forseti, leggur meiri hlutinn til að 19. gr. frumvarpsins verði breytt þannig að nýtt ákvæði verði 6. gr. a en ekki 6. gr. b, svo sem lagt er til í frumvarpinu.

Þá leggur meiri hlutinn til að 20. gr. frumvarpsins falli brott. Greinin fjallar um heimild Umhverfisstofnunar til gjaldtöku vegna leyfisveitinga og eftirlits. Í umsögn Umhverfisstofnunar kemur m.a. fram að með því að fela stofnuninni útgáfu starfsleyfa nái ákvæði 21. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir til þessa en ákvæðið fjallar um gjaldtöku vegna þjónustu stofnunarinnar. Óþarft sé að kveða á um sérstaka gjaldtökuheimild vegna leyfisveitinga og eftirlits með kolvetnisstarfsemi fyrst almenn ákvæði laganna um gjaldtöku nái til leyfisveitinga og eftirlits með kolvetnisstarfseminni.

Þá leggur meiri hlutinn til að gerðar verði tvær breytingar á fylgiskjölum — og ég tel að þetta séu gríðarlega mikilvægar breytingar — við lög um hollustuhætti og mengunarvarnir. Annar vegar er lagt til að fylgiskjali I, sem hefur að geyma lista yfir atvinnurekstur sem Umhverfisstofnun veitir starfsleyfi fyrir, verði breytt þannig að rannsóknir og vinnsla kolvetnis séu talin upp í fylgiskjalinu í samræmi við það sem lagt er til í 19. gr. frumvarpsins. Hins vegar er lagt til að fylgiskjali II, sem hefur að geyma lista yfir starfsemi sem færa skal grænt bókhald, verði breytt þannig að kolvetnisvinnsla komi fram í upptalningunni. Þetta, virðulegi forseti, teljum við gríðarlega mikilvægt og ýmsir umsagnaraðilar komu inn á þetta.

Meiri hlutinn leggur til að 23. gr. frumvarpsins verði breytt, en greinin varðar breytingu á skilgreiningu laga um varnir gegn mengun hafs og stranda á hugtakinu losun þegar úrgangsefni eða önnur efni, sem beinlínis stafa frá rannsóknum eða nýtingu jarðefna í eða á hafsbotni, berast í hafið. Að ábendingu Umhverfisstofnunar og umsögn umhverfisnefndar er talið réttara að við b-lið 7. tölul. 3. gr. laganna bætist orðin: ,,nema um sé að ræða mengandi efni frá kolvetnisvinnslu eða boranir tengdar henni“. Með þessu er ætlunin að skýra nánar hvað átt er við með losun en ljóst er að hluti þeirra jarðefna sem stafa frá rannsóknum eða nýtingu teljast ekki losun. Meiri hlutinn vísar til þess að í 25. gr. frumvarpsins er lagt til að gildissvið laga um brunavarnir verði víkkað út þannig að það nái til starfsemi og framkvæmda utan netlaga og innan efnahagslögsögu og landgrunnsmarka vegna leitar, rannsókna og vinnslu kolvetnis. Í athugasemd Sambands íslenskra sveitarfélaga var gerð athugasemd við að gildissvið laganna væri víkkað út með þessum hætti þar sem ljóst væri að flest ákvæði laganna ættu ekki við um þessa starfsemi og slíkt gæti valdið misskilningi. Í ljósi þessa leggur meiri hlutinn til þess að í 25. gr. frumvarpsins verði kveðið á um að gildissvið laga um brunavarnir verði látið halda sér nema sérstaklega sé kveðið á um annað í lögunum.

Að lokum, virðulegi forseti, er í 26. og 27. gr. frumvarpsins að finna ákvæði sem eingöngu munu ná til rannsókna á vinnslu kolvetnis utan netlaga og þar með takmörkum við þann þátt með því — og þetta er jafnframt gert vegna athugasemda. Að lokum leggur meiri hlutinn til að í lögum um brunavarnir komi í stað orðsins efnahagslögsaga orðið mengunarlögsaga í samræmi við þá hugtakanotkun sem nú þegar er í lögum um varnir gegn mengun hafs og stranda.

Virðulegi forseti. Ég hef lokið máli mínu hvað þetta varðar og meiri hluti iðnaðarnefndar leggur til að frumvarpið verði samþykkt með framangreindum breytingum sem gerð er tillaga um á sérstöku þingskjali.

Undir þetta rita sú er hér stendur, formaður og framsögumaður iðnaðarnefndar, Kristján Þór Júlíusson, Einar Már Sigurðarson, Eygló Harðardóttir, Herdís Þórðardóttir, Rósa Guðbjartsdóttir, Björk Guðjónsdóttir og Grétar Mar Jónsson, með fyrirvara.