136. löggjafarþing — 63. fundur,  19. des. 2008.

kolvetnisstarfsemi.

152. mál
[23:38]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það er einmitt þetta. Mér er ljóst að umhverfisnefndin fékk málið til umfjöllunar og fékk marga aðila málsins á sinn fund. Engu að síður einkenndi það starf nefndarinnar að hún hefði í raun ekki lögsögu, eins og hv. þingmaður komst að orði, í málinu og mér finnst það athugunarefni þegar svo stór hluti þessa máls, þessa pakka, ef svo má segja, heyrir undir eða fjallar um mál og löggjöf sem lýtur að verksviði hv. umhverfisnefndar. Við það er ég eiginlega að gera athugasemd hér.

Varðandi síðan skipulagsþáttinn þá sýnist mér líka að í þeirri tillögu sem hér er lögð fram um bráðabirgðaákvæði þá komi það bráðabirgðaákvæði inn í lögin um leit, rannsóknir og vinnslu kolvetnis sem er á forræði iðnaðarráðuneytisins enda þótt það bráðabirgðaákvæði lúti fyrst og fremst að endurskoðun skipulags- og byggingarlaga. Mér finnst dálítið sérkennilegt að setja það þar inn vegna þess að það er þá á forræði iðnaðarráðherra í raun að setja af stað athugun á því hvort nauðsynlegt sé að breyta skipulags- og byggingarlögum. Ég veit ekki alveg hvort þetta er kórrétt stjórnsýsla.

Ég get alveg tekið undir efnisatriðið þannig séð að það sé eðlilegt að láta fara fram athugun á þessu í samvinnu þessara aðila. En ég hefði engu að síður talið að það hefði þá átt að koma með einhverjum hætti inn í skipulags- og byggingarlögin. Ég tek undir það sem kom fram í máli forstjóra Skipulagsstofnunar á fundum umhverfisnefndar að skipulagsþátturinn reyndist vera vanreifaður í þessu máli og þarf meiri yfirlegu, meðal annars með tilliti til athugasemda sem komu fram hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga um breytingar á umdæmi sveitarfélaga í skipulagsmálum sem ég er algerlega sammála. Ég er sammála þeim sjónarmiðum sem þaðan hafa komið og mun beita mér fyrir því þegar (Forseti hringir.) skipulagslögin verða vonandi til umfjöllunar hér aftur síðar í vetur.