136. löggjafarþing — 63. fundur,  20. des. 2008.

tekjuskattur.

228. mál
[00:51]
Horfa

Frsm. efh.- og skattn. (Pétur H. Blöndal) (S):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti frá hv. efnahags- og skattanefnd um frumvarp til laga um breyting á lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt, með síðari breytingum. Það er að finna á þskj. 406.

Í þingskjalinu kemur fram hvaða gestir komu til nefndarinnar og hvaða umsagnir við fengum.

Í frumvarpinu er fjallað um nokkrar breytingar á ákvæðum tekjuskattslaga. Má þar nefna ákvæði um skattfrelsi greiðslna Endurhæfingarsjóðs, meðferð söluhagnaðar af íbúðarhúsnæði, skilyrði vaxtabóta, skilyrði barnabóta, einföldun framtalsskila og sjálfvirka upplýsingaskyldu. Einnig er að finna í frumvarpinu ákvæði til bráðabirgða sem ætlað er að koma í veg fyrir afturvirk áhrif laga nr. 38/2008 á tilgreinda söluaðila hlutabréfa.

Nefndin ræddi sérstaklega ákvæði 7. gr. frumvarpsins, um sjálfvirka upplýsingaskyldu banka, sparisjóða og annarra fjármálafyrirtækja gagnvart skattyfirvöldum. Fram kom að tilgangur þess væri að tryggja jafnræði í skattframkvæmd, þar með talið við álagningu skatta, skattaívilnanir og greiðslu bóta. Skattyfirvöld gætu á grundvelli þess haft eftirlit með að fjármálafyrirtæki haldi réttilega eftir staðgreiðslu skatta vegna tilgreindra fjármagnstekna. Þá væri ákvæðið liður í áformum skattyfirvalda skv. 6. gr. frumvarpsins um að aflétta framtalsskyldu af tilgreindum hópi framteljanda.

Á fundum nefndarinnar var sjálfvirk upplýsingaskylda rædd annars vegar með hliðsjón af þeim trúnaðarskyldum sem bankar bera almennt gagnvart viðskiptavinum sínum og hins vegar með tilliti til sérstakra aðstæðna í íslensku efnahagslífi. Undirstrikað var það sjónarmið að greiður aðgangur að umræddum upplýsingum gerði framkvæmd skattskila áreiðanlegri. Aðrir töldu að frumvarpsgreinin væri of víðtæk og til þess fallin að rýra traust á íslensku fjármálakerfi.

Nefndin leggur til breytingu á 7. gr. frumvarpsins og er hún gerð til að sætta öndverð sjónarmið skattyfirvalda og Samtaka fjármálafyrirtækja í málinu. Til viðbótar við það sem að framan er rakið hefur verið bent á að það geti reynst tæknilega erfitt að afhenda umræddar upplýsingar.

Nefndin leggur einnig til breytingu á gildistökuákvæði frumvarpsins. Auk þess bendir nefndin á að henni hafa verið gefnar þær skýringar á ákvæðum 1. gr. og a-liðar 2. gr. frumvarpsins að um formbreytingu sé að ræða.

Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingu sem kemur fram í umræddu þingskjali.

Hv. þm. Birkir J. Jónsson og Gunnar Svavarsson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins. Hv. þm. Grétar Mar Jónsson sat fund nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi og er samþykkur áliti þessu.

Undir nefndarálitið rita hv. þm. Pétur H. Blöndal, Ellert B. Schram, Ögmundur Jónasson, Bjarni Benediktsson, Lúðvík Bergvinsson, Katrín Jakobsdóttir og Rósa Guðbjartsdóttir.

Mig langar rétt aðeins til að koma með hugleiðingar frá eigin brjósti um skattfrelsi styrkja úr Endurhæfingarsjóði Alþýðusambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins. Ég tel mjög mikilvægt að þessi endurhæfingarsjóður fari í gang. Hann er afskaplega mikilvægur til að efla tengsl fólks við atvinnulífið, hvort sem þau tengsl hafa rofnað vegna sjúkdóma eða slysa, og það hefur sýnt sig að ef þessi tengsl rofna lengur en í hálft ár eru verulegar líkur á því að viðkomandi fari aldrei aftur á vinnumarkað. Þess vegna er endurhæfingarsjóður mjög gott fyrirbæri.

Hins vegar er skattfrelsi slíkra greiðslna alltaf dálítið varasamt. Fólk sem ekki nýtur þessara greiðslna en notar hins vegar sambærilega þjónustu, kaupir sér þjónustu til endurhæfingar, læknisþjónustu eða annað slíkt þarf að borga skatt af tekjum sínum til að standa undir greiðslunum. Tekjur sínar nota menn annaðhvort til eyðslu eða sparnaðar og borga skatt af hvoru tveggja. Þess vegna getur verið dálítið varasamt að fara mjög víða með svona skattfrelsi.

Ég vildi bara koma inn á þetta atriði sérstaklega. Það urðu miklar umræður um afhendingu gagna úr bönkunum en ég held að því hafi verið lent sæmilega. Þessi gögn gera það að verkum að skattstjóri getur í raun talið fram fyrir fólk og það er náttúrlega heilmikill munur þegar fólk þarf ekki lengur að telja fram sjálft.