136. löggjafarþing — 64. fundur,  20. des. 2008.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

243. mál
[09:36]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Þetta frumvarp ríkisstjórnarinnar um ráðstafanir í ríkisfjármálum ber vott um ranga forgangsröðun, ef ekki brenglað siðferðismat. Hverjir eru líklegastir til að hafa það af í kreppunni sem fram undan er? Það er hátekjufólkið. Er hér að finna hátekjuskatt? Nei. Hverjir eru líklegastir til að eiga erfiðast uppdráttar? Það eru skuldugir húsnæðiskaupendur, ráðist er á þá vegna þess að vaxtabætur eru skertar að raungildi. Barnafólkið mun koma til með að eiga erfitt og ráðist er á það, barnabætur eru skertar að raungildi. Ráðist er á aldraða og öryrkja og bætur þeirra skertar að raungildi, að þremur fjórðu. Þeir sem eru inni í almannatryggingakerfinu koma til með að sæta skerðingum. Bændur koma til með að eiga erfitt uppdráttar, aðföng öll verða dýrari. Ráðist er á þá.

Stefna ríkisstjórnarinnar birtist í hnotskurn í því frumvarpi sem við göngum til atkvæða um.