136. löggjafarþing — 64. fundur,  20. des. 2008.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

243. mál
[09:37]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Við greiðum atkvæði um ráðstafanir ríkisstjórnarinnar í ríkisfjármálum sem bera vott um mjög sorglega forgangsröðun. Hverjir eru það sem þurfa að greiða fyrir hagstjórnarmistök síðustu mánaða? Það eru aldraðir, [Hlátur í þingsal.] öryrkjar, húsnæðiseigendur og barnafólk. Með ólíkindum er að horfa á stjórnarliða hlæja að þessu. Síðast (Utanrrh.: Við erum að hlæja að þér.) en ekki síst eru það bændur (Gripið fram í.) og það eru kaldar kveðjur frá Sjálfstæðisflokknum að gengið sé á skriflega samninga við þá stétt. Hafi einhvern tíma verið þörf á að standa vörð um matvælaöryggi landsins og þessa mikilvægu stétt þá er það núna. Sorglegt er að sjá Sjálfstæðisflokkinn beita sér gegn því, því þær ráðstafanir sem ríkisstjórnin er að fara að samþykkja hér munu enn auka á verðbólgubálið, öllum til tjóns. En ríkisstjórnin styðst ekki við neina nema sjálfa sig. Ekkert samráð er haft við aðila úti í þjóðfélaginu þannig að ég vísa alfarið ábyrgð á hendur ríkisstjórninni í þessu skammarlega máli.