136. löggjafarþing — 64. fundur,  20. des. 2008.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

243. mál
[09:54]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Allir Íslendingar vita að við horfum nú fram á erfiða tíma. Það er einlægur ásetningur ríkisstjórnarinnar, og það er slæmt að heyra að einhverjir vilji afbaka það, og kemur fram í þessum frumvörpum að vernda velferðarþjónustuna. (Gripið fram í.) Í grófum dráttum má segja að hægt sé að gera þrennt þegar kemur að velferðarþjónustunni við þessar aðstæður. Í fyrsta lagi er hægt að minnka þjónustuna. Í öðru lagi er hægt að fara í mikla hækkun þjónustugjalda og í þriðja lagi er hægt að gera það sem ríkisstjórnin er að gera, (Gripið fram í.) að taka á rekstrinum. Það er ekki einfalt mál en það er nokkuð sem við ætlum að gera til að reyna að viðhalda og helst efla það þjónustustig sem hér er til staðar. Það er algerlega fráleitt að standa upp (Forseti hringir.) og halda því fram að ekki séu þjónustugjöld fyrir heilbrigðisþjónustu í norræna módelinu. Þannig hefur það alltaf verið á Íslandi og í þeim löndum sem við berum okkur (Forseti hringir.) saman við. (Gripið fram í.)