136. löggjafarþing — 64. fundur,  20. des. 2008.

kjararáð.

210. mál
[10:16]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði styðjum þetta frumvarp en höfum haft á því ákveðna fyrirvara sem fram hafa komið í umræðum um málið. Við stóðum að tillögum sem snúa að kjarajöfnun, að aðeins yrði hreyft við kjörum þeirra sem hæst hafa launin. Önnur laun yrðu ekki hreyfð. Tillaga okkar gekk út á að kjaraskerðing yrði ekki á laun undir 450 þús. kr. — verðbólgan mun sjá um það, því miður — einvörðungu hinna sem eru með há laun. Þess vegna var það réttmætt sem t.d. kom fram í málflutningi hv. þm. Karls V. Matthíassonar um að álitamál væri hvort réttmætt væri að skerða kjör hópa, stétta, sem heyra undir kjararáð. (Forseti hringir.) Ég tek undir þau sjónarmið sem fram komu hjá honum. Þetta mega ekki verða skilaboð út í þjóðfélagið um að atvinnurekendum, hvort sem er á almennum launamarkaði (Forseti hringir.) eða hjá hinu opinbera, áskotnist siðferðislegur réttur til að ráðast á kjör fólks. Ég minni á að ólöglegt er að skerða kjarasamningsbundin laun.