136. löggjafarþing — 64. fundur,  20. des. 2008.

eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara.

246. mál
[10:35]
Horfa

Frsm. minni hluta allshn. (Atli Gíslason) (Vg):

Frú forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti um eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara. Að frumvarpinu standa sá sem hér er í ræðustól, hv. þm. Jón Magnússon og hv. þm. Siv Friðleifsdóttir.

Meginmarkmið þessa frumvarps er að gera breytingar á núgildandi lögum er snúa að eftirlaunum forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara. Forsögu málsins má rekja til setningar laganna árið 2003 sem hafði í för með sér lögbindingu fjölmargra sérréttinda, sérstaklega til handa ráðherrum og hæstaréttardómurum. Er vandséð að það hafi tekist að öllu leyti að ná þessum markmiðum.

Minni hlutinn telur að málið hefði þarfnast mun meiri tíma í nefndinni svo unnt hefði verið að fara yfir það með fullnægjandi hætti og gulltryggja að frumvarpið næði tilgangi sínum.

Minni hlutinn telur mikilvægt að ekki gildi sérreglur fyrir forseta Íslands, ráðherra, alþingismenn og hæstaréttardómara hvað eftirlaun varðar. Það er mat minni hlutans að eðlilegast sé að þeir greiði sambærileg iðgjöld og njóti sömu réttinda og opinberir starfsmenn í A-deild Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins. Slíkt fyrirkomulag er einfalt, auðskiljanlegt og gagnsætt auk þess að vera lýðræðislegt.

Minni hlutinn mun standa að breytingartillögum við frumvarpið sem byggðar eru á frumvarpi sem lagt hefur verið fram á Alþingi á þskj. 134 í 124. máli. Er vísað til þess um frekari rökstuðning. Hv. þm. Ögmundur Jónasson mun gera grein fyrir breytingartillögum.