136. löggjafarþing — 64. fundur,  20. des. 2008.

eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara.

246. mál
[10:37]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Við ræðum breytingar á lífeyriskjörum alþingismanna, forseta Íslands, ráðherra og hæstaréttardómara. Það hefur verið mikil umræða um þetta mál, talað um forréttindi o.s.frv. vegna þess að þetta er ógagnsætt. Verið er að veita ákveðin réttindi sem menn sjá ekki í fljótu bragði hvað þýða.

Undanfarið hafa verið mikil mótmæli gegn því ástandi sem ríkir, gegn ýmsu, það er reiði í fólki. Ég bind vonir við að út úr þessum mótmælum komi ákveðin gerjun, ákveðin krafa, ákveðin umræða sem muni leiða til breytinga á ýmsum þáttum í þjóðfélaginu sem gjarnan má breyta. Þar á meðal er gagnsæi, gagnsæi kjara, gagnsæi lífeyriskjara og upplýsingar um lífeyriskjör. Lífeyriskjör eru afskaplega mismunandi hér á landi. Í fyrsta lagi eru enn þá í gangi lífeyrisréttindi sem tengdust gömlu ríkisbönkunum og voru ótrúleg. Þá eru líka lífeyrisréttindi í einstökum fyrirtækjum sem voru ótrúleg, bílar til æviloka hjá sjálfseignarstofnunum o.s.frv. Það er ekki uppi á borðum, þetta veit enginn nema sá sem nýtur.

Svo eru alls konar sérkjör. Það er t.d. B-deildin hjá Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins sem er með eftirmannsregluna. Þegar kennarar tvöfölduðust í launum vegna aðlögunarsamninganna hækkuðu lífeyrisþegar allt í einu líka tvöfalt vegna þess að þeir voru með eftirmannsregluna. Síðan erum við með A-deildina þar sem borgað er 15,5% iðgjald, þar sem ríkið borgar 11,5% iðgjald á móti 4% frá launþegunum á meðan það er 12% iðgjald hjá venjulegum lífeyrissjóði og réttindi mikið lakari sem því nemur. Þó er einn stór munur á þessum tveimur kerfum sem er að hjá Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins er ríkisábyrgð á réttindunum. Þeim verður ekki breytt. Það sem breytist er ef stjórnir sjóðanna tapa fjármagni sem þeim er falið til ráðstöfunar, t.d. á bankahruninu, hækkar iðgjald ríkisins, ekki launþeganna. Þá þarf að hækka iðgjald ríkisins á meðan engin bakábyrgð er hjá almennu sjóðunum. Hjá almennu lífeyrissjóðunum verða réttindin skert, frú forseti. Það er reginmunur á þessu.

Við erum reyndar núna að leggja til að þau vikmörk sem mega að vera á milli eigna- og skuldbindinga lífeyrissjóðanna skuli víkkuð í eitt ár úr 10% í 15% til að koma í veg fyrir skerðingu vegna bankahrunsins en skerðingin mun líklega koma engu að síður. Hún kemur bara ári seinna. Þetta er eiginlega ófær staða og það er meira að segja fólk sem vinnur hjá sama vinnuveitandanum sem er í öllum þessum þrem kerfum. Sumir í B-deildinni hafa stórhækkað í lífeyri og eru jafnvel með mjög há laun og mjög góð lífeyrisréttindi, þ.e. læknar, ráðuneytisstjórar o.s.frv. Svo eru aðrir sem eru í A-deildinni með ágætiseftirlaun og er ríkisábyrgð á því. En svo er líka fólk sem vinnur hjá ríkinu, aðallega í umönnunarstéttum, láglaunafólk sem er í Eflingu, fólk sem er með 200 þús. kr. á mánuði. Lífeyrir þeirra verður skertur á sama tíma og iðgjaldið inn í Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins verður hækkað sem þýðir aukna skatta og skerðingu fyrir þetta sama fólk. Ef menn eru sáttir við svona jafnrétti er ég undrandi, frú forseti. Þetta er nefnilega ekki jafnrétti, þetta er ójafnrétti. Þetta er dulið, þetta er falið og það veit enginn af þessu.

Við erum hér með frumvarp um lífeyrisréttindi þingmanna. Þau eru aðlöguð að réttindum hjá ríkinu. Árið 1995 flutti ég frumvarp um að þingmenn væru með almenn réttindi eins og fólkið sem kýs þá, eins og 80% þjóðarinnar. Ég vil hafa það þannig að við upplifum sjálf hvernig er að verða skertur þegar eignin dugir ekki til, þegar áfall verður í ávöxtuninni. Það liggur ekkert fyrir við ætlum að fara út í svoleiðis og þær breytingartillögur sem hérna liggja fyrir ganga ekki út á það. Breytingartillögurnar frá hv. þingmönnum Vinstri grænna ganga út á að fara úr einu forréttindakerfinu yfir í annað. En réttindin verða tryggð, við getum alveg sofið róleg, það verður ekkert skert. Iðgjaldið verður hækkað á ríkið, frú forseti, ríkisframlagið verður hækkað. Telja menn þetta virkilega vera réttlæti á sama tíma og fólkið sem er í umönnunarstéttum, á sjúkrahúsum og elliheimilunum og út um allt er skert? Mér þykir það undarlegt. Það er undarlegt réttlæti þeirra manna sem halda slíku fram.

Til að varpa ljósi á þetta flyt ég breytingartillögu um að þingmenn geti valið sér lífeyrissjóð. Ég gæti valið almennan lífeyrissjóð, A-deildina eða hvaða lífeyrissjóð sem er. Þeir hv. þingmenn sem það velja fá launauppbót sem nemur þeim réttindamissi sem þeir verða fyrir, þeim réttindamissi sem felst í því að njóta ekki ríkisábyrgðar á réttindunum eins og 80% þjóðarinnar — það er þessi massi sem er að verða atvinnulaus núna. Þingmenn geti valið það og fá launauppbót. Þá kemur í ljós, frú forseti, hvers virði þessi réttindi eru. Þá kemur nákvæmlega í ljós hvers virði þau eru og ég mun ríða á vaðið þegar þessi breytingartillaga hefur verið samþykkt og óska eftir því að ganga í Lífeyrissjóð verslunarmanna þar sem ég á mestöll mín réttindi. Þau munu líklega verða skert þó að sá sjóður standi reyndar hvað best af öllum sjóðum vegna þess hve mikið er af ungu fólki í honum. Það eru aðrir sjóðir sem standa miklu verr, því miður, og hafa líka orðið fyrir áfalli.

Mér finnst það réttlætismál og það er krafa tímans um gagnsæi og upplýsingar að svona lagað sé gert þannig að ég skora á hv. þingmenn að samþykkja þessa tillögu. Hún er ekkert annað en heimild fyrir þingmenn til að fara út úr þessu forréttindakerfi sem þeir eru þvingaðir inn í með lögum. Ég er þvingaður inn í þetta með lögum. Ég skal greiða í þetta, ég skal njóta þessara réttinda. Ég skal hafa pikkföst réttindi þegar allur almenningur í landinu þarf að sætta sig við skerðingu, þá þarf ég ekki að sætta mig við skerðingu á þessum hluta lífeyrisréttinda minna. En þau réttindi sem ég aflaði mér á hinum frjálsa markaði áður en ég fór í þingstörfin skulu skert eins og allra hinna, 70–80% þjóðarinnar sem vinna á markaðnum og finna raunverulega fyrir þessu falli. En opinberir starfsmenn finna ekki fyrir því og þingmenn ekki heldur.