136. löggjafarþing — 64. fundur,  20. des. 2008.

eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara.

246. mál
[10:47]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Við erum núna að afgreiða fjárlög sem eru með mjög miklum halla vegna þeirra áfalla sem íslenska þjóðin hefur orðið fyrir, bankahruni, keðjuverkun, atvinnuleysi o.s.frv. Það er mjög mikill halli á ríkissjóði. Ef hann ætti að bæta lífeyrissjóðunum upp tap þeirra til að viðhalda réttindum þar yrði hann sennilega að bæta við nálægt 100 milljörðum. Nú veit ég ekki nákvæmlega hverju lífeyrissjóðirnir töpuðu en það sem hv. þingmaður segir er að ef við ætlum að rétta hlut almenningssjóðanna verðum við væntanlega að bæta þeim tapið af hruninu.

Ég sé ekki voðalega auðvelda leið til þess því að það mundi bara lenda á skattgreiðendum, þessu sama fólki og borgar í lífeyrissjóðina núna og verður brátt fjár vant þannig að það er engin lausn í því. Svo spyr hv. þingmaður hvernig ég sjái lausn í breytingartillögu minni. Hún er einmitt sú að sama dag og ég fer í Lífeyrissjóð verslunarmanna mun ég fá launahækkun sem því nemur, verðmæti réttindanna, og þá liggur það kristaltært fyrir hvers virði þessi réttindi eru, líka hjá opinberum starfsmönnum út um allt þjóðfélagið sem eru í A-deild og sérstaklega í B-deild. Þá munu menn ekki fimbulfamba alla daga um hve mikils virði þessi réttindi eru. Þá liggur það bara fyrir upp á krónu og aur og þá get ég verið með kjósendum mínum í Lífeyrissjóði verslunarmanna á meðan aðrir þingmenn eru í forréttindahópnum.