136. löggjafarþing — 64. fundur,  20. des. 2008.

eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara.

246. mál
[10:49]
Horfa

Frsm. minni hluta allshn. (Atli Gíslason) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég kom í ræðustól vegna þess að hv. þingmaður notar sér það að benda á lök kjör sjóðfélaga í hinum almennu lífeyrissjóðum. Ég skil rökstuðning hans þannig að hann vilji leiðrétta kjör allra niður á við þannig að þeir sitji við borð sem ekki er sæmandi. (Gripið fram í.) Ég hygg að hv. þingmaður ætti að huga að því.

Ég spurði líka hvernig hann sjái fyrir sér leiðréttingu. Ég er ekki að tala um leiðréttingu í fjárlögum í ár en ég spurði hv. þingmann hvernig hann gæti séð það fyrir sér til framtíðar þannig að við getum leiðrétt þessi kjör svo að allir sitji við sama borð, leiðrétt kjör þeirra sem lakast eru settir í lífeyrissjóðakerfinu. Kjör sjóðfélaga sem lakast eru settir verði færð upp. Hvernig sér hv. þingmaður það fyrir sér? Á hugsanlega að taka allt þetta inn í almannatryggingakerfið? Almanntryggingakerfið og lífeyrissjóðakerfið hafa ekki starfað saman sem skyldi. Réttindi í lífeyrissjóðum hafa orðið til skerðinga á rétti í almannatryggingakerfinu og er þá hugsanlegt að snúa til baka? Er þetta kerfi jafnsterkt og af er látið miðað við það hrun sem orðið hefur hér?

Svo verð ég líka, frú forseti, að vekja athygli á því svo að því sé haldið til haga að alþingismenn taka hér á sig verulegar skerðingar á lífeyrisréttindum, skerðingar umfram réttindi þeirra fyrir ósómalögin 2003, svo að því sé haldið til haga. Ég er ekki staddur í ræðustól til að leggjast gegn því. Ég hygg að þingmenn þoli það en þessari staðreynd verður að halda til haga.