136. löggjafarþing — 64. fundur,  20. des. 2008.

eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara.

246. mál
[10:51]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Öll velferðarkerfi og allar tryggingar eru greiddar af einhverjum og það er alltaf hinn vinnandi maður sem sér bæði um kynslóðina á undan sér og á eftir. Hann sér um uppeldi barnanna hvort sem hann gerir það með sköttum og kemur þeim á leikskóla og í grunnskóla eða hvort hann gerir það með beinni framfærslu. Það er í rauninni spurningin um dreifingu. Hann sér líka um kynslóðina á undan sér sem orðin er farlama og getur ekki unnið vegna elli. Hann sér líka um öryrkja. Svona er það.

Spurningin er hvað við ætlum að lesta hinn vinnandi mann mikið til að hafa góð kjör hjá hinum. Það er mjög mikilvægt að þau kjör séu sambærileg, að sumir séu ekki með mjög há réttindi í ellilífeyri og aðrir með lök réttindi. Ég hygg að ef þessi forréttindi opinberra starfsmanna, sérstaklega þingmanna og ráðherra, eru minnkuð og launin raunverulega sýnd, sé hægt að bæta kjör hinna sem verst eru settir. Reyndar er íslenska lífeyriskerfið alls ekki slæmt þó að það komi einstaka sinnum áföll eins og núna. Það er í rauninni tiltölulega gott miðað við alþjóðlegan samanburð. Þegar við höfum Tryggingastofnun undir sem net er það í rauninni tiltölulega gott. Ég hygg að þeir sem verst eru settir í íslenska lífeyrissjóðakerfinu eru ekki illa settir, alls ekki. En það sem er verst í þessu eru forréttindin sem sumir hafa komið upp. Ég vil benda á að þessi umræða á sér stað víðar í heiminum, t.d. í Bretlandi þar sem menn hafa komið sér upp forréttindalífeyri. Lífeyrir er nefnilega falinn, hann sést svo illa. Það er bara sá sem tekur á móti honum sem veit hvar hann er. Yfirleitt er hann ekki þekktur. Hérna í þjóðfélaginu er ótrúlegur fjöldi fólks sem hefur góðan lífeyri. Ég held að það hafi verið 800 manns árið 2005 sem höfðu meira en hálfa milljón á mánuði lífeyri samkvæmt könnun sem ég gerði.