136. löggjafarþing — 64. fundur,  20. des. 2008.

eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara.

246. mál
[11:14]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Ég ætla að kynna breytingartillögur við frumvarp ríkisstjórnarinnar sem standa að auk mín hv. þingmenn Atli Gíslason, Jón Magnússon, Grétar Mar Jónsson, Siv Friðleifsdóttir og Eygló Harðardóttir. Tillögur okkar er að finna í sex liðum, í fyrsta lagi tillögu þess efnis að allir sem heyra undir lögin fari nú við áramótin yfir í A-deild Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins. Hún er lögum samkvæmt öllum þessum aðilum opin og ef svo færi að þetta yrði samþykkt þá mundu alþingismenn, ráðherrar, svokallaðir æðstu embættismenn og aðrir sem lögin taka til njóta sambærilegra lífeyriskjara og almennt gerist hjá starfsmönnum ríkisins.

Í öðru lagi er ákvæði þess efnis að þegar áunninn réttur verði eigi skertur. Þetta er í samræmi við frumvarp sem áður hefur komið fram hjá hv. þm. Valgerði Bjarnadóttur. Því hefur oft verið hreyft í umræðunni að rétt væri að skera alveg á slík áunnin réttindi og láta reyna á það hvort einhver vildi sækja réttinn fyrir dómstólum en niðurstaðan varð sú að fara þessa leið.

Í þriðja lagi er ákvæði þess efnis að taki menn lífeyrisréttindi samkvæmt gildandi lögum og koma til með að halda áunnum réttindum sínum, verði farið að okkar ráðum, hafi ekki heimild til að gegna öðru starfi og taka jafnframt óskertan lífeyri. En við förum aðra leið en ríkisstjórnarmeirihlutinn gerir í þessu efni vegna þess að ríkisstjórnin vill einvörðungu skerða laun þeirra sem eru í starfi hjá hinu opinbera eða félögum sem eru að meiri hluta í opinberri eign. Með öðrum orðum mun fyrrverandi þingmaður eða ráðherra sem fer til starfa hjá ríkinu sæta þessum frádrætti en gerist menn forstjórar hjá tryggingafélagi eða olíufélagi, bankastjórar (PHB: Eða stéttarfélagi.) eða stéttarfélagi eða gegna starfi hjúkrunarfræðings eða sjúkraliða eða hvað það nú er sem menn fara að starfa þá eru þeir lausir allra mála. Við viljum láta eitt yfir alla ganga (Utanrrh.: Ekki hjúkrunarfræðingar.) hvað þetta snertir. Ekki hjúkrunarfræðingur, jú. (Gripið fram í: Þeir fá óskert.) Nei. Ef viðkomandi er hjúkrunarfræðingur þá skal hann samkvæmt frumvarpi sem ríkisstjórnin stendur að ekki geta tekið eftirlaun á sama tíma og hann gegnir launuðu starfi hjá hinu opinbera, það gildir líka hjá hjúkrunarfræðingi. Það sem ég er að segja er að það sama eigi að gilda um fólk sem er starfandi á almennum vinnumarkaði. Samkvæmt ríkisstjórnarbreytingartillögunum er gerður þarna greinarmunur á. Greinarmunurinn er sá að samkvæmt tillögum meiri hlutans á því aðeins að skerða laun þeirra eða lífeyrisréttindi þeirra, lífeyrisgreiðslur þeirra sem fara að starfa að loknu þingstarfinu hjá hinu opinbera. Ef viðkomandi fer að starfa hjá fyrirtæki á markaði á þessi skerðing ekki að koma til. Þetta er munurinn. (KHG: Hún er í gildandi lögum.) Í gildandi lögum er þessi frádráttur ekki. (Gripið fram í: Jú, um ...) Við viljum láta eitt yfir alla ganga hvort sem þeir eru hjá ríki eða annars staðar. (Gripið fram í: Líka ...) Nú er það þannig að einstaklingur getur verið í starfi hjá hinu opinbera og jafnframt tekið eftirlaun. Síðan er hitt alveg rétt sem fram kom í máli hv. þm. Kristins H. Gunnarssonar að taki hann lífeyrisgreiðslur fyrir 65 ára aldur — það er annað mál — þá sætir hann skerðingu um 0,5% fyrir hvern mánuð. Það er rétt og það er áfram. En ég er að vekja athygli á þessum mun sem gerður er á starfsmönnum hins opinbera annars vegar og starfsmönnum á almennum vinnumarkaði hins vegar. Við viljum ekki gera þennan greinarmun þarna á.

Síðan er í 4. og 5. lið breytingartillagna okkar felldur brott meginlagakaflinn og í 6. lið er ákvæði um gildistöku 1. janúar í stað 1. júlí í tillögum ríkisstjórnarinnar. Það er í rauninni alveg óskiljanleg ósvífni að mínu mati að ætla að hanga á þessu núna í hálft ár til viðbótar. Ríkisstjórnin eða oddvitar ríkisstjórnarflokkanna sem hér sitja, hæstv. forsætisráðherra og hæstv. utanríkisráðherra, formenn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar hétu kjósendum því að tekið yrði á þessum málum. Margir trúðu því að Samfylkingin ætlaði að afnema lögin og færa þingmenn, ráðherra, svokallaða æðstu embættismenn og aðra sem lögin taka til inn í almennt kerfi opinberra starfsmanna. Menn trúðu því margir. Kjósendur trúðu því margir því það var látið í veðri vaka í aðdraganda síðustu kosninga. Nú eru þeir búnir að hanga á þessu allan þennan tíma og fyrir bragðið hækka eigin lífeyriskjör og lífeyrisréttindi vegna þess að á hverju ári hefur lífeyrisávinnsla ráðherra verið rúmlega 42 þús. kr. í stað 23.610 kr. ef þeir hefðu verið í A-deild lífeyrissjóðsins þannig að á hverju ári hafa þeir verið að hækka lífeyrisgreiðslur til sín sem nema rúmum 18 þús. kr. á mánuði hverjum með því að hanga á þessum sérréttindum og fara ekki inn í LSR. Nú á enn um sinn að fresta eigin kjaraskerðingu.

Ég vil víkja nokkrum orðum að því sem kom fram hjá hv. þm. Pétri H. Blöndal sem var óskaplega æstur yfir ranglæti heimsins og því misrétti sem væri við lýði í lífeyriskerfinu almennt og horfði hann þá til opinbera kerfisins annars vegar og almenna kerfisins hins vegar. Hann vildi laga þetta — hvernig? Með því að færa lífeyriskerfið hjá opinberum starfsmönnum niður. Það var hans lausn.

Staðreyndin er sú að opinberir starfsmenn hafa lagt ofurkapp á að viðhalda og bæta lífeyrisréttindi sín. Það hefur orðið öllum launamarkaðnum mjög til góðs. Það er þannig núna til dæmis að starfsmenn hjá sveitarfélögum og hinu opinbera, gagnstætt því sem skilja mátti á málflutningi hv. þm. Péturs H. Blöndals, búa við sambærileg réttindi og opinberir starfsmenn gera. Það er greitt fyrir starfsmenn innan Starfsgreinasambandsins, þar á meðal Eflingar sem starfa hjá sveitarfélögunum og sama gildir um ríkið, 11,5% frá atvinnurekendahliðinni og 4% frá launamanninum. Það er sama upphæð, sama hlutfall og gerist hjá mönnum í BSRB og BHM. Þetta hefur verið fært til betri vegnar vegna þess að ekki tókst að skerða almenn lífeyrisréttindi opinberra starfsmanna. Þess vegna hefur þetta orðið til þess að færa réttindi allra upp.

Hitt er alveg rétt hjá hv. þingmanni að það er enn ákveðinn munur á. Hann er sá að hjá opinberum starfsmönnum eru lífeyrisréttindin föst stærð en iðgjöldin eru breytileg stærð. Þessu er hægt að koma á í almenna lífeyriskerfinu líka ef vilji er til þess. Það er alveg hægt, ekki síst eftir að lífeyrissjóðirnir voru sameinaðir og taka nánast til alls launamarkaðar. Ef það væru samantekin ráð að halda réttinum sem fastri stærð en hafa launin og iðgjöldin breytileg þá yrði það veruleikinn fyrir alla. Ég vona að svo verði vegna þess að það skiptir miklu máli fyrir fólk sem komið er á lífeyrisaldur að geta gengið að föstum réttindum. Það er auðveldara þegar við erum vinnandi að aðlaga okkur breytingum. Um þetta hafa verið talsvert skiptar skoðanir innan verkalýðshreyfingarinnar. Ég hef verið ákafur talsmaður þess að standa vörð um lífeyrisréttinn og hafa þá kaupmátt launatekna breytilegan og það sé í laununum sem við tökum á okkur skerðingarnar og ávinninginn ef því er að skipta.

Kem ég þá að þeirri mismunun sem er fólgin í lífeyrisréttindum þingmanna annars vegar samkvæmt þeim breytingum sem hér liggja fyrir og annarra. Í fyrsta lagi er ávinnslan miklum mun meiri (Gripið fram í: Fimm á móti fjórum.) hjá þingmönnum en gerist hjá hinu opinbera annars staðar og á hinum almenna vinnumarkaði. Ávinnslan hjá þingmönnum kemur til með að verða 2,375% (Gripið fram í.) á ári. Í gömlu B-deild Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins er þessi ávinnsla 2%. Þeim sjóði hefur nú verið lokað. Frá 1. janúar árið 1997 var honum lokað. Það fer engin nýráðning þar inn lengur. Þá var settur á laggirnar nýr sjóður eða ný deild innan LSR sem gengur undir nafninu A-deildin. Það er sjálfbær sjóður. Hann á að rísa undir þeim réttindum sem þar er að finna. (Gripið fram í.) Það er ákveðinn munur á tryggingu sem fólk hefur innan þessara sjóða. Hver er hann? Innan B-deildar lífeyrissjóðsins tekur fólk mið af launum eftirmanns í starfi, nýtur svokallaðrar eftirmannsreglu. Í þessu er fólgin mikil trygging, eins konar launavísitölubinding lífeyrisréttinda sem er mjög verðmæt því þó að það gerist eins og nú er, að við erum að verða vitni að núna, að neysluvísitalan hækkar langt umfram það sem launavísitalan gerir þá er það sem betur fer svo að þegar á heildina er litið og til mjög langs tíma hafa launakjörin verið að batna. Þess vegna eru fólgin í B-deildinni mjög mikil verðmæti. Þessara verðmæta njóta alþingismenn vegna þess að þeir verða áfram vísitölutryggðir að þessu leyti. Þeir taka áfram mið af eftirmanni í starfi. Um þá á ekki að gilda sama reglan, sama breytingin og var gerð gagnvart öðrum árið 1997 þegar allir voru færðir undir neysluvísitöluna.

Í A-deildinni er ávinnsla lífeyrisréttinda 1,9% núna. (Gripið fram í.) Hún er síðan færð upp samkvæmt neysluvísitölu. Í almennum lífeyrissjóðum á markaði er þessi ávinnsla minni, 1,4–1,6%, hygg ég að það sé. Þar er aftur viðmiðun í neysluvísitölu. Síðan eru margvísleg önnur ákvæði til ávinnings hjá alþingismönnum. Ég nefni til dæmis makabótarétt. Hann er 50% af áunnum réttindum til æviloka. Í A-deild Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins er það 50% til þriggja ára, 25% til tveggja ára og síðan búið nema viðkomandi eigi börn undir 22 ára aldri. Þá er ávinnslan áfram. Í þessu eru fólgin mikil verðmæti og ég vek athygli á að alþingismenn njóta einnig framreiknings örorkubóta.

Síðan er hitt sem er mjög stórt mál og hefur verið vikið að — mjög stórt mál og mjög verðmætt — að ef alþingismenn taka lífeyri fyrir 65 ára aldur eins og fram kom í máli hv. þm. Kristins H. Gunnarssonar þá verður skerðing um 0,5% á mánuði, 6% á ári, 30% ef þeir fara niður í þann aldur sem hann nefndi, sama og gerist hjá A-deild LSR. Það sama á við um það nema það er einn grundvallarmunur sem hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson gleymdi að nefna. Hann er sá að þegar þingmaðurinn er kominn á 65 ára aldur þá gerist svolítið. Bingó! Þá er hann aftur kominn upp í 100%. En skerðingin hjá sjúkraliðanum og hjúkrunarfræðingnum og slökkviliðsmanninum er til æviloka. Halda menn að þetta kosti ekki neitt? Síðan komu menn hér — ég ætla einhvern tíma að fara ofan í saumana á þessum ræðum sem hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson hefur flutt við þessa umræðu og þann samanburð sem hann gerði á réttindum þingmanna og réttindum sem eru innan A-deildar LSR þegar hann jafnaði síðan þessu 1% sem menn borga til viðbótar (KHG: Gerðu það bara strax.) inn í lífeyrissjóðinn — ég ætla að stúdera það — vegna þess að það gleymist í þessu að skoða hver iðgjöldin þyrftu að vera í reynd í alþingismannasjóðnum ef hann ætti að vera sjálfbær með öllum þessum umframréttindum, þessum sérréttindum, þessum forréttindum. Ég hef ekki nákvæma útreikninga á því. En ég staðhæfi að þau eru ekki undir 35%. Ég er sannfærður um það þannig að þetta 1% sem verið er að sveifla til og frá gerir afskaplega lítið í því samhengi.

Hæstv. forseti. Þegar allt er saman tekið — ég hef ekki nefnt alla þætti lífeyrisréttinda alþingismanna og svokallaðra æðstu embættismanna og þeirra sem lögin taka til — en þegar dæmið er gert upp er augljóst að við erum að tala um forréttindafrumvarp, forréttindaréttindi sem menn voru að æsa sig yfir að fólk úti í bæ, eins og það er kallað, leyfir sér að hafa skoðun á þegar almenningur er að horfa á þingið véla um sín eigin kjör og leyfa sér að álykta um það og þess vegna auglýsa um það. Það er þetta sem margir lögðu sig í líma við með hv. þm. Kristin H. Gunnarsson í fararbroddi sem hefur tekið að sér einhvers konar verkstjórn í vörnum ríkisstjórnarinnar og var að reyna að gera hér tortryggilegt við umræðuna í gær.

Hæstv. forseti. Við komum til með að greiða atkvæði um þær tillögur sem liggja fyrir annars vegar frá ríkisstjórninni og hins vegar frá stjórnarandstöðunni, frá sex stjórnarandstöðuþingmönnum og ég hygg að það sé fyrir meginþorra þeirra sem núna skipa stjórnarandstöðuna og ég hef grun um að í stjórnarliðinu vilji margir veita okkar hugmyndum og tillögum brautargengi. Það verður fróðlegt að sjá hvernig menn greiða atkvæði. Það verður mjög sýnilegt vegna þess að það verður óskað eftir nafnakalli við þessa atkvæðagreiðslu.

Aðeins í lokin um (Gripið fram í.) tillögu sem hv. þm. Pétur H. Blöndal kynnti áðan um valfrelsi í lífeyrismálum. Hann hefur löngum talað fyrir því að einstaklingurinn hefði valfrelsi og að þeir væru ekki skipulagðir þannig á félagslegum grunni, á stéttarfélagslegum grunni. Ég segi, hæstv. forseti, og ég segi við þingheim: Ástæðan fyrir því að okkur hefur tekist að tryggja gott lífeyriskerfi á Íslandi, lífeyriskerfi sem nú á í erfiðleikum að sönnu, er sú að stéttarfélögin, þ.e. verkalýðshreyfingin hefur staðið þar að baki og stuðlað að því að hér hefur verið byggt upp öflugt félagslegt kerfi og ég vona að við berum gæfu til þess að standa vörð um það kerfi inn í framtíðina. En þá þurfum við líka að uppræta það mein (Forseti hringir.) sem sérréttindi þeirra sem hér eru inni óneitanlega eru.