136. löggjafarþing — 64. fundur,  20. des. 2008.

eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara.

246. mál
[11:38]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Þá liggur það fyrir. Hv. þingmaður ætlar að neyða mig áfram í forréttindi. Hann ætlar ekki að leyfa mér að fara í þann lífeyrissjóð þar sem ég á mest réttindi, hann ætlar ekki að leyfa mér að fara í þann lífeyrissjóð þar sem flestir mínir kjósendur eru eða réttindi sem þeir hafa almennt. Hann ætlar að láta mig vera áfram í forréttindum. Ég þakka hv. þingmanni fyrir.

Síðan talaði hv. þingmaður um 2,375% en þeir sem kunna stærðfræði geta reiknað 1,9% sem eru hjá A-deildinni, 1,9% á ári, margfaldað með 5 sem er iðgjald þingmanna og deilt með 4 sem er iðgjald almennra sjóðfélaga í A-deildinni og þá fær hann út 2,375. Þetta er reyndar mjög illa skýrt í frumvarpinu, afskaplega illa, og er það ámælisvert, frú forseti. Það er heldur ekki skýrt í nefndaráliti allsherjarnefndar. En þetta er ósköp venjuleg stærðfræði. Það er það sem fólkið borgar, 4%, og þingmenn 5%. Það sem hv. þingmaður vill er að hafa iðgjaldið breytilegt hjá öllum lífeyrissjóðum en réttindin föst sem þýðir að það á að skerða kjör hins vinnandi manns þegar ávöxtun næst ekki því að það sem fyrirtækin borga fólkinu í hærra iðgjald í lífeyrissjóð gætu þau alveg eins borgað sem hærri laun til viðkomandi starfsmanna. Það sem gerist núna ef hv. þingmaður nær sínu fram er að stjórnir sjóðanna verða ábyrgðarlausar, það þarf ekki að skerða lífeyri, kjör allra sjóðsfélaga verða skert. Ég er ekki viss um að almenningur sé hrifinn af slíkri hugsun.