136. löggjafarþing — 64. fundur,  20. des. 2008.

eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara.

246. mál
[11:43]
Horfa

Kristinn H. Gunnarsson (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil rifja upp að grein var gerð fyrir skýrslu eða samantekt um stöðu þingmanna í ýmsum öðrum löndum þegar lögin voru sett árið 2003. Þar kemur m.a. fram að þjóðkjörnir fulltrúar búa oft við aðrar aðstæður í þessum efnum en almennir launþegar og það er greinilegt að í mörgum löndum hefur mönnum fundist eðlileg skipan mála að hafa eitthvert sérstakt kerfi fyrir þá sem búa við þá stöðu að þeir eru kosnir af almenningi. Það gildir ekki sama um þá og venjulega launþega eða sambærilegar stéttir. Það er ekkert óeðlilegt, virðulegi forseti, að menn geri það. Í Svíþjóð og Noregi er það t.d. þannig að þingmenn sem hafa setið í 12 ár á þeim þingum höfðu þá unnið sér inn full eftirlaunaréttindi. Það var a.m.k. svo þegar menn settu lögin árið 2003. Kerfið sem við tókum upp í lögunum 2003 hvað varðar eftirlaunarétt alþingismanna var nánast sniðið að því sem þá gilti í Þýskalandi. Ég held að menn fari ekkert út á torg og hrópi þar um að einhver spilling eða ósómi sé á ferðinni, eftirlaunaósómi í þessum löndum. Ég held að menn átti sig bara á því að þetta á sín rök og getur verið sanngjarnt kerfi ef hlutirnir eru ákvarðaðir með þeim hætti að það ofbjóði ekki mönnum hvað varðar heildarlaunakjör. Ég held að það sé ekki þannig á Íslandi. Launakjör alþingismanna eru mjög hófleg. Ef eitthvað er að eru þau sennilega of lök í samanburði við margar aðrar stéttir sem eðlilegt er að miða sig við.

Ég spyr hv. þingmann hvers vegna hann standi í þessum útifundahrópunum gagnvart eftirlaunakjörum alþingismanna árum saman með manni sem hefur 900 þús. kr. í laun á mánuði, (Forseti hringir.) forseta Alþýðusambands Íslands?