136. löggjafarþing — 64. fundur,  20. des. 2008.

eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara.

246. mál
[11:47]
Horfa

Kristinn H. Gunnarsson (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Á móti eftirlaunaréttindum sem eru rífleg, eins og alltaf hefur verið tekið fram, kemur það að launakjörin eru lægri. Þegar launin og eftirlaunin eru metin í heild sinni kemur út sú stærð sem miðað er við í úrskurðum kjararáðs. Þessi staða alþingismanna er mjög hófleg og mér finnst að hv. þingmaður hafi árum saman gert mjög mikið af því að afhrópa kjör alþingismanna, slá sér upp á kostnað þeirra með upphrópunum í útifundastíl og reyndar staðið fyrir útifundum til að hrópa niður ákvarðanir um kjör alþingismanna. Það er engum öðrum til að dreifa til að setja löggjöf á Íslandi en alþingismönnum. Til þess eru þeir kosnir. Þess vegna er það verk þeirra að setja löggjöf um eigin stöðu og eigin kjör hvort sem þeir ákvarða þau sjálfir eða fela öðrum að gera það, eins og kjararáði.

Eitt dæmið um rangfærslur hv. þingmanns nefndi hann sjálfur áðan sem var starfskostnaður sem var ákveðinn fyrir nokkrum árum 40 þús. kr. á mánuði, sem þótti eftir athugun vera eðlileg fjárhæð miðað við þann starfskostnað sem þingið greiðir og þá fjárhæð sem mönnum sýndist þetta vera. Það var afhrópað og gert tortryggilegt og hv. þm. Ögmundur Jónasson gekk lengst fram í því með öðrum lýðskrumurum því að hv. þingmaður er algerlega í sérflokki í lýðskrumi og upphrópunum og sérstaklega gagnvart félögum sínum á þingi. Það þykir mér afar slæmt að menn leiki þann leik að reyna alltaf að slá sér upp á annarra kostnað. Ég ætla að biðja hv. þingmann að fara að hætta því. Hann gerði það síðast í gær með blaðaauglýsingu í Fréttablaðinu þar sem ósannindin voru borin fram til að reyna að blekkja þjóðina frá því sem ríkisstjórnin er þó að myndast við að gera. Ég er ekki alveg sáttur við það. En hv. þingmaður leggur sig fram við að reyna að afvegaleiða þjóðina frá því sem er verið að leggja til á Alþingi. (Gripið fram í.)