136. löggjafarþing — 64. fundur,  20. des. 2008.

eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara.

246. mál
[11:49]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er sennilega alveg rétt hjá hv. þm. Kristni H. Gunnarssyni að við göngum aldrei nógu langt í því að sýna samstarfsmönnum okkar og samherjum sanngirni. Ég efast ekki um að við getum lært mikið af hv. þingmanni í þeim efnum.

Ég var sannast sagna og er því fylgjandi að laun þingmanna séu ákveðin hér. Við getum t.d. gert það í sömu viku og við ákveðum bætur almannatrygginga til öryrkja og aldraðra. Þegar hv. þingmaður vísar í viðmið í samfélaginu og hvað sé eðlilegt og gott í þeim efnum þá horfir hann upp í forstjórana og talar um að ef þetta sé ekki uppi í einhverjum himinhæðum þá fáist ekki nógu gott fólk til starfa. Ég held að þessu sé öfugt farið. Því hærri laun því vitlausara fólk færðu inn. Ég er alveg sannfærður um að svo er. (Gripið fram í.) Það sem við eigum að horfa til (RR: Þvílík mannfyrirlitning.) — ég er að tala um þennan gráðuga hóp í samfélaginu sem við eigum ekki að fylla salinn með. (Gripið fram í.) Spurningin er sú hver á að vera okkar viðmiðunarhópur. Eigum við ekki að horfa til ljósmæðra? Eða slökkviliðsmanna? Eigum við ekki að horfa til þess fólks sem gegnir lykilstöðum í þjóðfélaginu og við viljum vera í tengslum við þannig að menn hér inni finni það af sjálfum sér hvað er réttlátt og hvað er ranglátt en þurfi ekki að slá því upp í einhverjum uppsláttarritum? Að menn séu í tengslum við launaþjóðina, við veruleikann í þjóðfélaginu. Þetta kallar hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson lýðskrum. (Gripið fram í.)