136. löggjafarþing — 64. fundur,  20. des. 2008.

eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara.

246. mál
[12:00]
Horfa

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf):

Frú forseti. Hér erum við að tala um tímabært mál að mínu mati sem tekur aftur þau sérréttindi sem voru ákveðin fyrir fimm árum, 2003, sem lutu að þessum hópi og þess vegna fagna ég þessu frumvarpi og tel að hér séu tekin jákvæð skref. Ég vil líka minna þingmenn á að í umræðunni hafa menn verið að skamma Samfylkinguna allhressilega fyrir að hafa skoðun á þessu máli, jafnvel ýtt á eftir því. Hér hafa þingmenn talað fyrir því að Samfylkingin hafi ekki mátt benda á að breytinga væri þörf. Það hafa hv. þingmenn gert og mér finnst það afar sérkennilegt því að það er ekki síst Samfylkingin sem hefur sett þetta mál á dagskrá reglulega þau fimm ár sem þessi lög hafa verið í gildi. Það hafa ekki verið Vinstri grænir. Vinstri grænir hafa gargað á torgum en þeir hafa ekki lagt fram nein þingmál nema núna á síðustu metrunum til að breyta þessu. Það hefur Samfylkingin gert.

Þegar þessi ríkisstjórn var mynduð settum við sömuleiðis í stjórnarsáttmálann að það bæri að jafna þessi kjör. Þess vegna eru mikil öfugmæli að skammast út í Samfylkinguna sem er núna að ná í gegn í samstarfi við Sjálfstæðisflokkinn á sínu öðru ári í ríkisstjórn veigamiklum breytingum, ekki léttvægum breytingum heldur veigamiklum. Þess vegna er fagnaðarefni að þetta mál sé núna komið til þingsins og við séum að taka þau skref sem hér verða tekin. Ég vísa á bug allri þeirri gagnrýni að Samfylkingin hafi hangið á málinu eins og hv. þm. Ögmundur Jónasson segir sem er núna í þessari umræðu búinn að gera popúlisma að listformi. (Gripið fram í: Popúlismi …) Samfylkingin hefur lagt fram þingmál, Samfylkingin hefur talað fyrir þessu máli og hlotið skömm í hattinn, m.a. frá hv. þm. Siv Friðleifsdóttur, fyrir að tala um málið og það er mjög sérkennilegur málflutningur þegar við erum á öðru ári í ríkisstjórn að ná mjög veigamiklum jákvæðum breytingum.

Förum aðeins yfir breytingar sem Vinstri grænir hafa talað um sem örlítið skref og kattarþvott. Í frumvarpinu erum við að koma í veg fyrir tvöföldu greiðslurnar sem hafa verið gagnrýndar öll þessi ár og í rauninni göngum við lengra því að möguleiki á þeim var fyrir hendi árið 2003. Við göngum lengra núna þegar kemur að því að koma í veg fyrir að einstaklingur geti þegið á sama tíma eftirlaun frá ríkinu og laun frá ríkinu.

Í öðru lagi göngum við lengra í að skerða réttindaávinnslu þessara hópa. Við göngum lengra en var fyrir 2003. Þetta er mikilvægt að hafa í huga. Við erum að lækka réttindaávinnslu ráðherra úr 6% í 2,375% og þingmanna úr 3% í 2,375%. Réttindaávinnsla vissra þingmanna fyrir 2003 var meiri þannig að við erum að ganga enn þá lengra en var ákveðið með ólögunum 2003, ólögum sem formaður Vinstri grænna greiddi fyrir á þingi að kæmi á dagskrá þingsins. Við skulum ekki gleyma sögunni, eins illa og okkur kann að vera við hana. Svona var málið og það vita allir þingmenn, og þjóðin veit það að hinn háheilagi flokkur Vinstri grænir átti sinn flutningsmann að málinu og átti hlut að þessu máli þegar það kom fram í þinginu. Þetta vita þingmenn og annað er blekkingarleikur.

Í þriðja lagi erum við að afnema sérreglur sem lutu að forsætisráðherra en hann var í ólögunum 2003 settur í einhvern sérstakan klassa. Við erum að afnema það. Það er ekki lítið skref, hv. þm. Ögmundur Jónasson. Það er ekki kattarþvottur.

Í fjórða lagi hækkum við aldursmörkin og í fimmta lagi jöfnum við réttindaávinnslu milli þingmanna og ráðherra. Þetta eru breytingar sem skipta máli. Þjóðinni hafa sviðið þessi atriði í lögunum, gildandi lögum, og við erum að breyta því núna. Þess vegna er ekki rétt og sanngjarnt sem menn segja úti í samfélaginu, í fjölmiðlum, hv. þingmenn, að hér séu tekin örlítil skref og þetta sé kattarþvottur ríkisstjórnarinnar. Það er ekki rétt. Við erum að taka mikilvæg skref. Við erum að taka á þeim atriðum sem hafa hvað mest verið gagnrýnd og sviðið mest í réttlætiskennd þjóðarinnar. Höfum þetta í huga.

Fulltrúi forsætisráðuneytisins var spurður við meðferð málsins í allsherjarnefnd hvaða sérréttindi væru eiginlega eftir. Hann gat ekki nefnt nein sérstök sérréttindi. Og ef um er að ræða sérréttindi skulum við fá þau á borðið. Ég heyri hér að það er mismunandi skilningur milli þingmanna í stjórnarandstöðunni. Sumir telja að við göngum of skammt, aðrir telja að við göngum of langt. En við settum í nefndarálit — við erum ekki að loka þessari umræðu — að þessi mál ættu að koma enn frekar til skoðunar. Það er allt í lagi að taka þá umræðu, bera saman A-deildina og síðan þetta. Það er alveg (Gripið fram í.) rétt sem hv. þm. Pétur Blöndal segir, það er eins og menn hafi ekki áttað sig á einfaldri stærðfræði þegar þeir bera saman A-deildina og síðan það kerfi sem hér er. Reyndar er tekið fram í frumvarpinu að verði frumvarpið að lögum verði réttindaávinnsla alþingismanna og ráðherra í hlutfallslegu samræmi við réttindaávinnslu sjóðfélaga í A-deild Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins að teknu tilliti til hærri iðgjalda. (Gripið fram í: Af hverju …?) Þessi hópur, þingmenn og ráðherrar, greiðir 5%, fær 2,375% til baka. Einstaklingar í A-deildinni greiða 4%, fá 1,9%. Þetta er það sama. (Gripið fram í.) Menn borga meira og fá meira. Ég kvíði ekki þeirri umræðu hvort við eigum að ganga lengra og fara í A-deildina. Tökum þá umræðu. En þetta frumvarp sníður hins vegar þá agnúa sem hafa verið hvað mest gagnrýndir og umdeildir og það ætti að vera mikið fagnaðarefni, a.m.k. hv. þingmanna Vinstri grænna sem hafa gagnrýnt þessi lög. Ég átta mig ekki á Framsóknarflokknum vegna þess að hann studdi einmitt lögin 2003, ólíkt Samfylkingunni. Samfylkingin studdi ekki eftirlaunalögin þegar þau fóru hérna í gegn fyrir utan einn þingmann. (Gripið fram í: Hann lagði málið fram.) Já, já, eins og ég segi liggur okkar saga alveg fyrir. Ég er ekkert að fela hana en ég tek sérstaklega fram hvernig atkvæðagreiðslan var þegar lögin fóru í gegn. Við skulum hafa þetta allt uppi á borðinu. Við áttum flutningsmann á málinu, ég viðurkenni það alveg. Við áttum aðkomu að þessu máli alveg eins og vinstri grænir. En við höfum ekki farið í þann leik eins og vinstri grænir að þvo hendur okkar af aðkomunni. Það finnst mér ekki sanngjarnt. Ég held að hv. þingmenn Framsóknarflokksins séu alveg sammála því.

Þetta frumvarp er ekki kattarþvottur, er ekki örlítið skref. Það er ekki sett fram í þeim tilgangi að verja forréttindi og sérréttindi, heldur einmitt að skerða þau, minnka og taka í burtu. Ég minni líka á það að verði þetta frumvarp að lögum mun lífeyrissjóðsskuldbinding lækka gagnvart ráðherrum um 60%. Við erum hér að lækka lífeyrissjóðsskuldbindingu um 60% gagnvart ráðherrum. Það er ekki lítið skref, það er ekki kattarþvottur. Gagnvart þingmönnum er lækkunin 20% og í heild lækkar skuldbinding um 40% þannig að þetta eru ekki lítil skref sem við erum að taka. Við eigum að vera ánægð með að við séum að ná því í gegn að þær sérreglur sem voru settar 2003 heyri brátt sögunni til. Auðvitað átta ég mig alveg á því að það geta verið rök fyrir því að ganga alla leið, eins og menn segja, í A-deildina. Tökum alveg þá umræðu. Það er ekkert mál en þessi skref eru tímabær og hljóta að vera í samræmi við vilja flestra þingmanna.

Að lokum, virðulegi forseti, ítreka ég að þessari umræðu um lífeyrisréttindi eða jafnvel launamál þingmanna lýkur ekki í dag. Við tökum það sérstaklega fram í meirihlutaáliti allsherjarnefndar að skoðun á annarri útfærslu, öðrum breytingum, þurfi að eiga sér stað. Það er vinna sem við getum farið í. En það á ekki að koma í veg fyrir að við tökum í burtu þessi sérsniðnu ákvæði sem voru sett 2003 og særðu svo réttilega réttlætiskennd og sóma þjóðarinnar sem fólk horfði upp á, allar krúsindúllurnar sem virtust miða nánast að ákveðnum einstaklingum sem voru settar í þau lög á þeim tíma. En nú erum við að taka það skref fram á við að gera þetta sanngjarnara og henda út þessum sérkennilegu ákvæðum sem fóru í gegn rétt fyrir jól 2003.