136. löggjafarþing — 64. fundur,  20. des. 2008.

eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara.

246. mál
[12:11]
Horfa

Guðjón A. Kristjánsson (Fl) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að láta þess getið í andsvari mínu að mér finnst afar slæmt að við séum að reyna að koma þessu máli í gegnum þingið í einhverri tímapressu á næstsíðasta degi fyrir jólaleyfi eins og að er stefnt ef ég veit rétt um áætlanir forseta.

Ég vil spyrja hv. þm. Ágúst Ólaf Ágústsson hvað hann álíti að gerist í kjararáði þegar lagt verður mat á 60% rýrnun lífeyrisréttinda ráðherra og 20% rýrnun lífeyrisréttinda þingmanna. Við samþykktum hér lög í gær, að vísu ekki með mínu samþykki vegna þess að ég átaldi vinnubrögðin um lækkun kjara alþingismanna … (Forseti hringir.) Það er að mörgu að hyggja í öllu þessu samhengi sem við erum að fást við núna á síðustu dögum þingsins. Ég tel að þetta séu óvönduð vinnubrögð sem við viðhöfum hér, hæstv. forseti.

(Forseti (ÁRJ): Forseti vill geta þess að ræðutíminn er ein mínúta í báðum umferðum þar sem eru fjórir andsvarendur.) (GAK: Það er ekki …)

(Forseti (ÁRJ): Já, það voru mistök og biðst forseti velvirðingar á því.)