136. löggjafarþing — 64. fundur,  20. des. 2008.

eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara.

246. mál
[12:14]
Horfa

Guðjón A. Kristjánsson (Fl) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég er í raun og veru sammála svari hv. þingmanns. Þetta er m.a. afleiðingin af því sem við erum að fást hérna við. Ég bendi á það, hæstv. forseti, að þessum lögum er ekki ætlað að taka gildi fyrr en á miðju næsta ári og við erum ekki að vinna vel að þessum málum með því að reyna að keyra það í gegn í tímapressu. Við förum ekki yfir alla þætti málsins, afleiðingar þess eða hliðarverkanir. Við ræðum þetta ekki í samhengi við það sem við erum að fjalla um varðandi þá stöðu sem er í landinu ef menn halda að það sé umræðan sem eigi að taka hér.

Ég hef ævinlega verið þeirrar skoðunar að við þingmenn eigum að geta rætt opið um réttindi okkar, hvort sem það eru launakjör eða lífeyriskjör. Ég hef sagt það frá fyrstu tíð, frá því að þetta mál var samþykkt, að það mætti koma aftur inn í þing mín vegna (Forseti hringir.) hvenær sem væri en ég tæki ekki þátt í handahófsvinnubrögðum rétt fyrir jól eða rétt fyrir þinglok.