136. löggjafarþing — 64. fundur,  20. des. 2008.

eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara.

246. mál
[12:15]
Horfa

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég get tekið undir það með hv. þingmanni að æskilegt er að við tökum meiri tíma í umfjöllun um málin, mörg þeirra fara allt of hratt í gegn. Mér finnst hins vegar þetta mál liggja þannig fyrir að verið sé að taka á mjög þekktum atriðum, atriðum sem hafa verið rædd hérna í fimm ár. Menn hafa m.a. unnið lögfræðiálit til að skoða hvert svigrúm löggjafans er í þessum efnum. Ég styð því framgang málsins á þinginu, að við samþykkjum það í dag eða á allra næstu dögum. Þetta eru atriði sem mér finnst ekki þola mikla bið til viðbótar. Þarna er verið að taka á ákveðnum einföldum atriðum en þó mikilvægum. Þó að við stígum þessi skref hættum við ekki umfjöllun um lífeyriskjör og stöðu umræddra hópa. Ég fullyrði að sú umræða mun halda áfram á nýju ári. (Forseti hringir.) Hægt er að ímynda sér aðrar breytingar sem hugsanlega færa þennan hóp inn í A-deild þegar sú umræða á sér stað á vettvangi (Forseti hringir.) stjórnmálanna en sú umræða hefur ekki farið fram.