136. löggjafarþing — 64. fundur,  20. des. 2008.

eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara.

246. mál
[12:18]
Horfa

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þm. Ögmundur Jónasson spyr: Hver er eiginlega barátta Samfylkingarinnar? Engum blöðum er um það að fletta að þingmenn Samfylkingarinnar og fleiri í samfélaginu hafa ítrekað tekið þetta mál upp á þessum vettvangi, á fundum og í fjölmiðlum og öðru slíku. Við höfum lagt fram þingmál, við höfum sýnt það í verki að við krefjumst breytinga.

Hvar eru þingmálin frá Vinstri grænum í þessu máli á undanförnum fimm árum? Ég veit að korteri fyrir þetta mál kom fram þingmál, en hvar eru öll þingmál Vinstri grænna á þessu sviði? Hvar er barátta Vinstri grænna á þessum vettvangi önnur en sú að garga á torgum eins og hv. þingmaður hefur gert að ævistarfi sínu? Hvar eru verkin þegar að því kemur að reyna að fá breytingar sem menn tala iðulega um á útifundunum og á flokksfundum? Árangur þeirrar baráttu hjá Vinstri grænum er afskaplega lítill, virðulegi forseti. (Forseti hringir.)

Við erum hér að stíga skref og mér finnst sérkennilegt að hv. þingmaður tali áfram um að þau mikilvægu skref séu „örlítil“, séu „kattarþvottur“, því að þau eru það ekki. Hann sýnir ekki sanngirni þegar hann kemur ítrekað í pontu (Forseti hringir.) og gerir lítið úr frumvarpi sem felur í sér þá (Forseti hringir.) mikilvægu þætti að jafna kjörin og afnema helstu agnúa (Forseti hringir.) af lögunum frá 2003.