136. löggjafarþing — 64. fundur,  20. des. 2008.

eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara.

246. mál
[12:19]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Já, þetta með virðinguna og að gera lítið úr fólki, gera lítið úr baráttu sem fjöldasamtök heyja, verkalýðshreyfingin, Öryrkjabandalagið, útifundirnir á Austurvelli — þar á meðal ég, sem hafi gert það að ævistarfi mínu að garga á torgum. Er verið að tala um forseta Alþýðusambands Íslands sem var hér nýlega á fundi? Er verið að tala um Öryrkjabandalag Íslands? Er verið að tala um fólk úti á Austurvelli, að það sé að garga á torgum þegar það mótmælir sérréttindum sem þingmenn hafa áskapað sjálfum sér?

Hæstv. forseti. Hvað um öll þessi frumvörp? Hvar er frumvarp okkar, Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs? Það er í nefnd þar sem það hefur verið fryst eins og jafnan er gert með þingmál frá stjórnarandstöðunni. Samfylkingin er hins vegar í ríkisstjórn. (Forseti hringir.) Henni er í lófa lagið að koma málum fram og núna ætlar hún að viðhalda sérréttindum (Forseti hringir.) þingmönnum til handa í stað þess að fara með alla spyrðuna inn í Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins. (Forseti hringir.) Reyndar gefst okkur tækifæri til þess í atkvæðagreiðslu (Forseti hringir.) síðar í dag að sýna hver raunverulegur (Forseti hringir.) hugur okkar er í þessu efni.