136. löggjafarþing — 64. fundur,  20. des. 2008.

eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara.

246. mál
[12:21]
Horfa

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég áttaði mig ekki á því að í hv. þingmanni birtist Alþýðusambandið, Öryrkjabandalagið, öll félagssamtök í landinu o.s.frv., sem réttilega hafa haft sterka skoðun á þessu máli. Ég er að gagnrýna framgöngu hv. þingmanns. Hann hefur löggjafarvald á þingi en hefur ekki ómakað sig að leggja fram eitt einasta þingmál á öllum þessum tíma til að nýta það vald til að afnema þessi óréttlátu kjör, sem hann iðulega nefnir svo, nema núna korteri fyrir málið sem kemur frá okkur.

Það er rétt að Samfylkingin er í ríkisstjórn og henni er í lófa lagið að gera breytingar. Þess vegna er þetta mál líka komið fram því að menn hafa náð samkomulagi milli stjórnarflokkanna um að stíga þessi stóru skref um að afnema sérstök ákvæði um forsætisráðherra, minnka réttindaáhersluna, lækka heildarskuldbindinguna um 40%, hækka aldursmörk og annað slíkt. (ÖJ: Af hverju ekki afnema sérréttindi?) Það eru verkin sem tala, hv. þingmaður, og þess vegna er þetta mál komið fram á öðru ári okkar í ríkisstjórn, það ætti að vera fagnaðarefni í huga hv. þingmanns en virðist ekki vera það.