136. löggjafarþing — 64. fundur,  20. des. 2008.

eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara.

246. mál
[12:24]
Horfa

Kristinn H. Gunnarsson (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það atriði sem kom inn 2003 og kveikti eldana var fyrst og fremst þetta sérstaka ákvæði varðandi forsætisráðherra. Margt annað kom inn í lögin þá og er ekki lagt til að það verði tekið út. Ég get talið upp sjö atriði sem þá komu ný inn í lögin en ekki er hróflað við að þessu sinni.

Það er meiri ósóminn sem á þá að sitja áfram, virðulegi forseti. En ég vil árétta það að varðandi alþingismennina voru eftirlaunakjörin skert árið 2003 og enn er lagt til að skerða þau árið 2008. Fyrir þann þingmann sem hafði setið í 10 ár er skerðingin orðin, frá því sem var fyrir 2003, úr 187 þús. kr. niður í 133 þús. eftir að þetta frumvarp verður að lögum. Það er um 30% skerðing, virðulegi forseti, og ég bið menn að vera ekki að tala á þeim nótum að þarna hafi menn verið að færa réttindi til alþingismanna. Það er hið gagnstæða, menn hafa verið að færa réttindi frá þeim.