136. löggjafarþing — 64. fundur,  20. des. 2008.

eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara.

246. mál
[12:26]
Horfa

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég get tekið undir það, ef ég skil hv. þingmann rétt, að margt sem sagt hefur verið um þá gríðarlegu kjaraaukningu þingmanna sem átti að eiga sér stað árið 2003 er ekki á rökum reist. Það miðast fyrst og fremst við bætt kjör ráðherra. Þess vegna eru þær breytingar sem finna má í frumvarpinu fyrst og fremst miðaðar við að taka þau réttindi til baka eða breyta þeim með einum eða öðrum hætti. En það er ljóst að við erum klárlega að skerða réttindi þingmanna í þessu frumvarpi. Við erum að lækka réttindaáhersluna úr 3% niður í rúmlega 2% og það er klárlega skerðing og það er alveg rétt hjá hv. þingmanni að draga það fram í dagsljósið svo að menn viti hvað við erum að fara að samþykkja. Það skiptir líka miklu máli í mínum huga að þetta komist út í umræðuna því að hún vill oft verða fjörug þegar kemur að svona málum.

Ég þakka hv. þingmanni fyrir málefnalega umræðu í dag.