eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara.
Virðulegi forseti. Þetta eru mjög athyglisverðar umræður. Mig langar að spyrja hv. þm. Ágúst Ólaf Ágústsson út í A-deildina af því að ég heyri að hv. þingmaður er að gæla við hana. Það kemur í ljós í nefndarálitinu að verið er að tala um að gera frekari breytingar eða útfærslur og að áfram þurfi að skoða málið. Það kom líka fram í ræðu hv. þingmanns.
Hv. þingmaður segir að sérreglurnar heyri sögunni til en það er ekki rétt. Áfram er sérregla í gildi fyrir þingmenn að hinu nýja frumvarpi ríkisstjórnarinnar samþykktu. Ég heyri að þingmanninn langar — ég ætla að túlka orð hans á þann veg að honum finnist eðlilegt að fara inn í A-deildina. Ég spyr þá: Af hverju stígum við ekki strax það skref að fara inn í A-deildina? Þá eru engar sérreglur fyrir okkur, þá erum við bara í A-deildinni og njótum þeirra réttinda sem þar eru og greiðum það iðgjald sem þar er krafist? Af hverju er þetta skref ekki stigið?