136. löggjafarþing — 64. fundur,  20. des. 2008.

eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara.

246. mál
[12:28]
Horfa

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður segir að ég sé að gæla við einhverja hugmynd og ég er kannski meira en að gæla við hana, ég er að segja að hún sé ekki útilokuð. Það er ekki útilokað að við gerum frekari breytingar á þessu og færum þennan hóp í A-deildina. Það getur vel verið að það skref verði stigið. Að sama skapi þurfum við að vita hvað það þýðir. Við þurfum að vita hver sérréttindin eru ef svo má segja ef einhver eru eftir. (Gripið fram í.) Eins og hv. þingmaður benti á þurfum við að vita nákvæmlega hvaða sérréttindi eru eftir. Hv. þingmaður sat í allsherjarnefnd þegar við fjölluðum um þetta mál og fulltrúi forsætisráðuneytisins gat raunar ekki bent á nein sérréttindi sem stæðu út af eftir samþykkt þessa frumvarps.

Út af frammíköllum hv. þm. Guðjóns Arnars Kristjánssonar vil ég benda á að þau skref sem við stígum hér eru tiltölulega einföld. Menn annaðhvort styðja þau eða styðja þau ekki og þó að við viljum skoða málið enn frekar á það ekki að koma í veg fyrir að við stígum þau jákvæðu skref sem eru í frumvarpinu því að þau hafa svo sem verið til umræðu og gagnrýnd í þau fimm ár sem liðin eru frá því að þau lög voru sett.