136. löggjafarþing — 64. fundur,  20. des. 2008.

eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara.

246. mál
[12:29]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þm. Ágústi Ólafi Ágústssyni fyrir gott svar. Hv. þingmaður segir: Ég er ekki bara að gæla við A-deildina, ég vil virkilega að við skoðum það. Hv. þingmaður er þá á sömu skoðun og minni hlutinn sem hefur fært fram breytingartillögur við frumvarpið um að fara inn í A-deild LSR. Það væri þó eðlilegt ef menn eru sjálfum sér samkvæmir í stjórnarmeirihlutanum. Ég skal ekki segja hvað Sjálfstæðisflokkurinn vill en alla vega er hv. þm. Ágúst Ólafur Ágústsson, varaformaður Samfylkingarinnar. Maður mundi ætla að þegar meiri tími gefst eftir áramót hljóti menn að fara í endurskoðun og þá meira en gæla við að fara í A-deild LSR, þá gerum við meira en það, þá bara gerum við það, förum inn í hana. Ég vil spyrja hv. þingmann hvort hann telji að þetta séu vinnubrögð sem hann geti kvittað upp á — (Gripið fram í.) ég býst við því að meiri hlutinn ætli að þröngva þessu í gegn núna í dag. En getur hv. þingmaður fallist á að við förum strax í það eftir áramót að skoða málin aftur og fara inn í A-deildina?