136. löggjafarþing — 64. fundur,  20. des. 2008.

eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara.

246. mál
[12:30]
Horfa

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þó að ég vilji skoða þá leið sem lýtur að því að færa þennan hóp í A-deildina er ég ekki með því að segja að ég ætli eftir hádegi að samþykkja tillögu minni hlutans. Ég vil fá að vita nákvæmlega hvað í henni felst.

Þingmenn hafa sagt hér að A-deildin sé einhver forréttindahópur. Dregin er upp mynd af A-deildinni sem forréttindahópi, ef borið er saman við aðila á almennum vinnumarkaði. Þessi umræða átti sér ekki stað á vettvangi allsherjarnefndar vegna þess að við vorum að ræða þær breytingar sem nú eru gerðar. Við eigum þá umræðu eftir, það veit hv. þingmaður. Það getur vel verið að það sé einhver galli við að færa þetta í A-deildina. Það getur vel verið að við þurfum að skoða þetta í stærra samhengi, í því samhengi að jafna almennt öll lífeyrisréttindi á markaði, líka milli opinberra starfsmanna og aðila á almenna vinnumarkaðinum. Það er umræða sem margir þekkja og hafa tekið þátt í í mörg ár. Þetta má allt skoða mín vegna og er spennandi umræða því að auðvitað á jöfnuðurinn að vera lykilatriði. Auðvitað eiga ekki að vera nein sérréttindi, ég átta mig alveg á því.

Ég stend ekki hér til að verja einhver sérréttindi. Ég mæli fyrir þessum málum (Forseti hringir.) vegna þess að við afnemum sérréttindi. Það er þess vegna sem ég vil gera það að lögum í dag vegna þess að við afnemum óréttlát sérréttindi. Ég skal taka umræðuna um A-deildina hvenær sem er, strax 2. janúar ef hv. þingmaður kýs svo. (Forseti hringir.) Sú umræða er einfaldlega eftir, það vitum við hv. þingmaður.