136. löggjafarþing — 64. fundur,  20. des. 2008.

eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara.

246. mál
[14:25]
Horfa

Lúðvík Bergvinsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hlýddi af athygli á mál hv. þingmanns í þeirri ræðu sem hún flutti áðan. Það vakti athygli mína að hún lagði lykkju á leið sína í ræðu sinni til að finna að málflutningi Samfylkingarinnar sem hún hefur haft uppi frá 2003. Staðreyndin er sú að enginn flokkur hefur gagnrýnt þetta frumvarp jafnmikið og flutt tvö mál á þingi um breytingar á þessu máli hingað til. Það er staðreynd.

Staðreyndin er líka sú að það mál sem hér er verið að breyta og var samþykkt af þingmönnum þáverandi stjórnarflokka, var borið uppi af þingmönnum þáverandi stjórnarflokka, Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks. (VS: Það var flutt af ...) Það var borið upp og samþykkt af þessum þingmönnum. Það var hins vegar flutt af forsætisnefnd, það er ágætt að halda því til haga. (Gripið fram í.) Það var flutt af forsætisnefnd en það var á endanum samþykkt af þingmönnum Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks. (Gripið fram í: Það fór aldrei í nefnd.) Þess vegna finnst mér athyglisvert, virðulegi forseti, að hv. þingmaður komi upp núna og hundskammi þá sem gert hafa tillögur um breytingu á þessum málum og eins þá sem ekki studdu málið. Mér þótti það mjög athyglisverður málflutningur. Ég verð að segja það alveg eins og er, virðulegi forseti. Hér er hins vegar til umræðu frumvarp sem farið hefur verið yfir og er samkomulag stjórnarflokkanna og verður greitt atkvæði um það á eftir. Það er ekki alveg sanngjarnt að skamma stjórnmálaflokk fyrir mál sem hv. þingmaður bar ábyrgð á á þinginu fyrir nokkrum árum.