136. löggjafarþing — 64. fundur,  20. des. 2008.

eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara.

246. mál
[14:29]
Horfa

Valgerður Sverrisdóttir (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það sem mér finnst broslegast af þessu öllu saman er að hv. þm. Lúðvík Bergvinsson skuli koma upp í pontu og tala um að ég hafi verið skamma hann eða skamma Samfylkinguna. Menn þola lítið. Hvernig var á síðasta kjörtímabili þegar hv. þingmaður fór mikinn sem stjórnarandstæðingur? Þetta voru ekki skammir frekar en ég veit ekki hvað sem ég hafði uppi þegar tekið er tillit til þess. Þetta voru nánast gælur eins og hæstv. utanríkisráðherra bendir á.

En ég hafði fulla ástæðu til að láta þetta koma fram í ræðu minni vegna þess að frumvarpið sem Samfylkingin flutti í fyrra náði ekki fram að ganga vegna þess að það var flutt af Samfylkingunni einni. Ekki var reynt að hafa samráð við Sjálfstæðisflokkinn enda hurfu þeir úr salnum, hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins, þegar þessi umræða fór fram. Þeir voru greinilega ósáttir við framkomuna gagnvart samstarfsflokknum. Þess vegna erum við fyrst núna að breyta lögunum eftir að þessi langi tími hefur liðið.